Thursday, December 29, 2005

 

Uppgjör.

Á miðnætti annað kvöld rennur upp nýtt ár. Einu sinni enn. 2005 að kveðja og kemur ekki aftur. Runnið í aldanna skaut. Hefur um margt verið mér ákaflega gott ár. Minniháttar pestir hafa að vísu herjað á mig. Tekur því varla að minnast á það.Tíðarfarið hefði svo sem mátt vera betra. Minnist þó góðu daganna umfram hina. Í starfi hefur allt gengið að óskum. Óhemjuvinnutarnir og peningarnir gófluðust í kassann hjá vinnuveitendum mínum. Fékk líka ágæta kauphækkun og kvarta ekki að sinni. Keypti mér nýlegan fjallavagn sem hefur ekki verið sparaður. Og reyndar litla snattarann með skáldinu mínu. Og þegar minnst er á skáld kemur Gleðileikurinn upp í hugann. Sama hjá mér og elskulegum nafna mínum Ólafssyni að ég telst víst ekki hlutlaus ef dæma skal verkið. Gleðileikurinn gleðilegi skal hann vera. Og 1. júlí kom nýr íbúi í íbúð 205 að Ástjörn 7. Skáldið og Helga komu með kött. Raikonen hinn unga. Var fljótur að festa rætur hér. Koma sér upp venjum og siðum. Okkur semur ágætlega og finnst vænt hvorum um annann. Enda annar ljúfmenni og hinn ljúfketti. Og ekki má gleyma veiðistönginni. Herconinn reyndist mér afskaplega drjúgur í sumar. Nokkrir sjóbirtingar og 16 laxar úr Ölfusá.Tveir laxar úr Tunguá í Lundarreykjadal. Dalnum , þar sem áin litla rennur. Eins og stendur í litlu kvæði sem ég orti fyrir margt löngu.

Horfin ertu, harmi ég er sleginn
heitt ég elska þig minn kæri svanni
en nú er bara sútur og sorg í ranni
sumarið er horfið fram í dalinn
fagra, þar sem áin litla rennur,
þangað sem að ástin heitast brennur.
...........

Rifjar upp kvæði um útlenskt regn og fleira fallegt og ljúfsárt. Líklega er fátt jafn gott og hið ljúfsára. Hið ofurlítið þjáningarfulla og angurværa. Hið tregafulla getur stundum látið manni líða vel. Kannski er ég einn svona einkennilegur. Held þó ekki. Og varðandi veiðina má ekki gleyma indælum dögum í Veiðivötnum. Fyrst með strákunum mínum og svo einn viku síðar. Sérlega eftirminnilegt vegna stóru urriðanna. Hænganna, sem létu blekkjast. Grimmir og líklega svolítið ástfangnir. Hvorutveggja varð þeim að falli. Vonandi höfðu þeir lokið ætlunarverkinu áður.
Reikna nú ekki með að skrifa fleiri pistla á árinu. Nema mig dreymi eitthvað skemmtilegt næstu nótt. Aldrei að segja aldrei. Með áramótakveðjum og nýársóskum til ykkar allra frá okkur Raikonen. Ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Gleðilegt nýtt ár kæri.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online