Wednesday, August 31, 2005

 

Nýir draumar.

Bauðst skyndilega veiði í Tunguá í Lundarreykjadal í fyrramálið. Fékk mig lausan úr vinnunni og ætla að renna fyrir þann silfraða frá 7-13. Kannast aðeins við mig þarna. Fékk einu sinni 3 laxa í beit fyrir ofan Myrkhyl. Líklega glópalán því þá þekkti ég ána ekkert. Hlakka til þessarar farar og vona að nægilegt vatn sé í ánni. Þetta er lítil falleg á og er eiginlega uppeldisstöð fyrir laxinn í Grímsá. Reyðarvatn ættmóðir beggja. Björn bróðursonur minn á 60% af jörðinni Reykjum og þetta er svokallaður bændadagur. Vegurinn yfir Uxahryggi hefur verið lagaður mikið svo ég býst við að vera ca. klukkutíma uppeftir. Neyðist til að fara til vinnu síðdegis. Kaupsamningur kl. 16. En þegar veiði er annarsvegar er alltaf yndisleg eftirvænting. Hvað skeður? Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Sunday, August 28, 2005

 

Smámunasemi.

Einhver aumasta síða hér á vefnum er ruv.is. Mér er að verða sönn raun að því að kíkja á hana. Þar morar allt af villum. Ótrúlegum málblómum og stundum er ekki heil brú í setningunum. Og þetta er maður neyddur til að borga fyrir. Greinilegt að þeir sem skrifa á vefinn eru ekki starfi sínu vaxnir. Þarna var t.d. þjófur í hljólastól í heila viku. Reyndar með vægari villum. Það er mjög svo athugavert að ekki skuli vera hægt að skrifa síðuna rétt einn einasta dag allan ársins hring. Ég hef sent tölvupóst en ekkert svar fengið. Lengi þótt vænt um ríkisútvarpið og sárnar þessi sóðaskapur með ástkæra ylhýra. Ég hef stundum þótt smámunasamur í vinnunni. Verið að nöldra yfir því að menn vandi sig ekki nóg þegar verið er að skrifa texta. En ég held áfram nöldrinu og miðar bara nokkuð vel. Eignirnar á hinum fasteignasölunum eru alltaf að telja. Sumar telja 3 herbergi og eldhús og aðrar telja 5 herbergi og bílskúr. Eignirnar hjá Bakka telja ekki neitt. Þær eru ýmist 3ja eða 5 herbergja, minni og stærri, gamlar og nýjar en telja ekki neitt.Ég á veiðileyfi á Snæfoksstöðum í dag. Á mörkunum að ég nenni uppeftir. Áin foráttudrullug þar efra. Líklega verð ég samt að friða samviskuna og skreppa í svona einn til tvo tíma. Þeir fiska ekki sem ekki róa. Sit nú bara yfir morgunkaffinu og Raikonen leikur á alls oddi. Merkilegt hvað ein snifsislufsa getur verið óhemjuskemmtileg fyrir ungan kött. Ég held að þessi köttur hafi a.m.k. meðalkattagáfur. Í gær sagði ég við hann: Langar þig út. Mjá, mjá sagði dýrið og þaut að dyrunum.. Jafnast kannski ekki á við Hösmaga, enda þarf nú mikið til. Ég pantaði nýtt spegilgler á Grána minn um daginn. Það kom frá USA og kostaði bara 9.900 kr. Gráni er 1955 kg. og glerið 100 gr. Mér reiknast til að ef ég þyrfti að kaupa allt annað í Grána þá kostaði það 193.545.000 Eins gott að fara varlega með þennan einstaka eðalvagn. Búinn að aka honum 10.000 km á þessu hálfa ári síðan ég keypti hann. M.a. 5 ferðir í Veiðivötn. Svona dýr vagn verðfellur nokkuð við hvern ekinn km. En það er bara hluti af tilverunni nú um stundir að vera vel akandi.Það hefur nokkuð dregið úr norðanáttinni en greinilegt að haustið er á næsta leyti. Þessi endalausa hringrás heldur áfram. Áður en við er litið koma jólin og aftur fer að birta. Og svo kemur hin nóttlausa voraldar veröld með nýjum æfintýrum. Ykkar Hösmagi hæfilega bjartsýnn á veiði í dag.

Wednesday, August 24, 2005

 

Norðanátt.

Nú er komin hér norðanátt. Ágætistilbreyting eftir votviðrið að undanförnu. Frekar svalt en sólin komin upp. Þetta sumar hefur liðið með ógnarhraða. Þrátt fyrir risjótta veðráttu hefur þetta verið gott sumar. Eytt miklum tíma með Herconinn í höndunum og frystikistan orðin bólgin af fiski. Veiðivatnaurriðinn er frábærlega góður reyktur. Upplagt að láta reykja þessa stóru sem voru svo vænir að bíta á hjá mér. Það er mikil upplifun fyrir ástríðufullan veiðmann þegar svona stór urriði tekur 50-60 metra útí vatninu. Stekkur og sýnir sig. Maður hugsar hvort takast muni að þoka ferlíkinu til lands. Og þegar það tekst kemur yfir mann þessi andlega fullnæging sem ég minntist á um daginn. Kötturinn Raikonen kominn inn aftur. Opna fyrir honum dyrnar og hann viðrar sig. Og þegar inn er komið tekur hann til við þrif á sjálfum sér. Alltaf fundist ljúft að sjá ketti þrífa sig. Allar flugur eru í hættu þegar Raikonen er nærri.Fyndið að sjá hann veiða þær en ekki sérlega fallegt að sjá hann éta þær. Virðist þó ekki verða meint af. En ég öfunda hann ekki sérlega af þessari fæðu. Silungurinn þrífst vel af flugunni. Og þegar ég var að vinna norður í Mývatnssveit hérna í den var nú vargurinn iðinn við að setjast á nestið okkar. Menn reyndu að plokka flugurnar af brauði og kjúklingum. Ég sá fljótt að það var vonlaust verk. Tók þá ákvöðun að láta slag standa og át bara mývarginn með.Þetta komst uppí vana og mér leið prýðilega. Sumir sveltu sig frekar en að éta varginn með. Ég kíkti í veiðibókina við Ölfusá í morgun. Laxarnir orðnir 150 og einn hafði dregið 5 stykki í fyrradag. Fylltist strax löngun til að spreyta mig. Starfið kemur þó í veg fyrir það í bili. Mun samt reyna einhverndaginn. Gott að geta treint vertíðina eins langt og hægt er. Svo hefst bara 9 mánaða meðgöngutími á ný. Það er þó stundum hægt að stytta sér biðina með því að fara í Tangavatn. 1998 fór ég til veiða 20. desember. Blankalogn, 8 stiga hiti og ekki snjókorn á jörðu. Og silungurinn var grandalaus. Reiknaði ekki með veiðimanni á þessum tíma. Mokveiddi og aflinn var flakaður, reyktur og notaður í 2 útskriftarveislum. (Sölvi og Begga.). Þessi dagur er enn sterkur í minningunni, eins og reyndar fleiri. Var þarna aleinn í kyrðinni og hafði vatnið fyrir mig einan. En það er líka ákaflega ljúft að vera í góðum félagsskap við veiði. Það sannast best á hinum rómaða 3ja stanga degi í Ölfusá og í Veiðivötnum þegar synirnir eru með. Rifjum það allt upp aftur á næsta ári. Bestu kveðjur, Hösmagi, hress að vanda á fallegum morgni.

Monday, August 22, 2005

 

Stundum rætast draumar..

Ég dreif mig inní Veiðivötn aftur á föstudaginn. Ók inneftir á mettíma. Ætla ekki að opinbera tímann ef lögguskrattinn les þetta. Ég átti mér draum um að veiða stóran urriða. Ætlaði að sætta mig við litla heildarveiði ef ég fengi stóran fisk. Byrjaði í Ónýtavatni. Sá þar fallegan fisk og fékk högg á spúninn. Gafst upp eftir einn og hálfan tíma og hélt á góðan stað í Ónefndavatni. Varð hugsað til þess þegar Sölvi stakk sér þarna í vatnið fyrir nokkrum árum. Á eftir stönginni sem brunað hafði útí vatnið. Hann kom uppúr aftur með stöngina og 9 punda urriða á línunni. Fyrst í stað gerðist ekkert. En ekki leið á mjög löngu þegar heljarbolti hremmdi beituna. Og Fiskihrellir varð glaður og ákafur. Á miðri leið sleit urriðinn línuna. Líklega komið brot í hana eftir flækjur í síðasta túr. Þetta á auðvitað ekki að henda góða veiðimenn og afleitt að skilja öngul og línu eftir í fiski. Undir klukkan 7 gein tveggja pundari við agninu. Og nokkru síðar átti annar erindi við mig. Hann var 3,2 kg. Feiknafallegur fiskur af gamla stofninum. Og enn gerðust undur. Sá næsti var 3,8 kg. Draumurinn rættist og Fiskihrellir var strax orðinn sáttur við veiðina.Veiðiverðir urðu glaðir og undrandi að sjá þessa fallegu veiði. Að morgni laugardags var tekinn rúntur um Hraunvötnin. Reynt í stóra vatninu og Rauðagíg. Árangur enginn.Hélt afram meðfram Langasjó og aftur að Ónýtavatni. Klukkan 11 landaði ég 3ja stórurriðanum. 3,8 kg. Svo gerðist ekkert í marga klukkutíma. Milli hálfsex og hálfsjö var hann aftur við. 3 tveggjapundarar og fjögra pundari. Og til að kóróna þennan frábæra dag kom sá sjötti, 3,6 kg. Ég var í skýjunum. Og er reyndar enn. Á sunnudagsmorguninn gerðist nánast ekkert og Fiskihrellir hélt til byggða klukkan hálftvö. Alsæll með indæla veiðiferð og frábærlega góðan afla. Þetta voru vertíðarlok í stangveiðinni þetta árið. Því miður koma nú bændur með net sín. En við því er lítið að gera. Vona bara að þeir skilji nokkra væna eftir handa okkur stangveiðmönnum á næsta sumri. Veður var nokkuð gott miðað við árstíma. Og töfrar Veiðivatna eru ólýsanlegir. Nánast hluti af góðri tilveru þeirra sem hafa komið þar. Seiða mann til sín aftur og aftur. Hlakka strax til næstu ferðar í júli á næsta ári. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, August 15, 2005

 

Bensínið.

Nú kostar bensínið 114 krónur hér á Selfossi. Líklega ódýrasta bensín á landinu. Heimsmarkaðverð hækkar og oliufélögin hækka gömlu birgðirnar eins og jafnan áður. Það hefur nefnilega alltaf viljað svo óheppilega til fyrir þessar góðgerðastofnanir að ef heimsmarkaðsverð hækkar eru allir tankar tómir og ef það lækkar eru þær nýbúnar að fylla alla tanka af dýra bensíninu. Og bifreiðaeigendur borga brúsann. Kannski þurfa þessar stofnanir líka á peningunum okkar að halda í ríkara mæli nú en áður. Vantar líklega aura til að borga svindlsektirnar fyrir ólöglegt samráð um bensínverð. Og samkeppnin er fólgin í því að láta líða klukkutíma á milli hækkana. Sama verð hjá öllum. Og ekki bara uppá krónu. Heldur uppá 10 aura. Hvernig væri nú að sitja á sér aðeins. Skila örlitlu af þýfinu til baka. Það er raunar engin von til þess. Þó félögin séu 3 er samkeppnin engin. Þetta er nú einkareksturinn í sinni tærustu mynd.
Það er nú varla flóafriður hér til að blogga. Raikonen í errinu sínu. Vill líklega hjálpa til við þessa iðju. Enn mið nótt og við báðir glaðvakandi. Myrkrið að færa sig í aukana á ný. Tímans þungi niður. Enn eru þó veiðistangirnar til reiðu. Snæfoksstaðir og Ölfusá. Spáir að vísu rigningu. Enda bara platsumar og ekki verð ég að baða mig í sænska skerjagarðinum í vetur. Þar ku vera alvörusumar allt árið um kring. Ætla samt að una við minn hlut enn um sinn. Fer ef til vill aftur í Veiðivötn um næstu helgi. Vertíðarlokin. Búið að bjóða mér gistingu og það er aldrei að vita. Við feðgar höfðum það dásamlegt þarna um síðustu helgi. Komum heim hressir og endurnærðir á sunnudag með þokkalegan afla. Sölvi á förum til Skotlands að nýju. Svo byrjum við bara aftur að veiða á næsta ári. Bestu kveðjur til allra, ykkar Hösmagi ( og Raikonen).

Monday, August 08, 2005

 

Köttur á veiðum.

Nú er orðið ansi dimmt á nóttunni. Og blautt. Ánamaðkar uppá yfirborði jarðar og á yfirborði maðkafötunnar. Ég verð að geyma maðkafötuna á svölunum því það er allt of heitt í bílskúrnum. Og Raikonen var að uppgötva fötuna. Ég sat í makindum og þjóraði næturkaffi og kastaði teningum. Ég veitti því skyndilega athygli að kisi var að leika sér að einhverju á stofugólfinu. Það reyndist vera spriklandi ánamaðkur. Hann varð nú ekki beinlínis kátur þegar ég tók af honum þetta skemmtilega leikfang sem iðaði í skinni sínu. Varð að fjarlægja fötuna og kisi vældi og mændi á fóstra sinn. Botnaði ekkert í þessu harðneskjulega athæfi. Minnti mig á maðkatínsluna á Skólavöllunum fyrir margt löngu. Hafði sjaldnast frið við maðkaleitina fyrir Hösmaga sem þá var ungur. Kom í löngum stökkum til mín og fældi maðkinn niður í jörðina.Og ég skammaðist. Það eru sem sagt fleiri en ég sem hafa gaman af veiðum. Nú styttist í síðustu Veiðivatnaferð Grána á þessu ári. Nokkuð góð spá fyrir föstudaginn en rigningarspá á laugardag. Vona bara það besta og verð að fara að undirbúa leiðangurinn. Ætla að biðja stóra bróður að heimsækja Raikonen. Svona til að hann fái smáfélagsskap. Félagsvera hann kisi minn. Og matgæðingur. Það var bara normalbrauð í kvöldmat hér í gær. Og sardínur oná það. Raikonen fann einhverja ljúffenga lykt. Og hann fékk að sjálfsögðu sardínur. Malaði ánægjulega eftir að hafa sporðrennt tveim þeim síðustu. En hann er ekki hrifinn af banönum. Fæ að éta þá í friði. Verður skemmtilega grettinn á svip ef hann hnusar af þeim. Eins og þið sjáið af þessum skrifum þá er dýrið mitt mér ofarlega í huga. Sönn vinátta hefur myndast. Ætla að reyna að ala kisa vel upp. Læt þó flest eftir honum þó agi verði líka að vera. Erill í vinnu þessa dagana. Bara ágætt. Andrúmsloftið með betra móti meðan peningarnir streyma í kassann. Jæja, andleysið að ná yfirhöndinni svo best er að slá botninn í. Með kveðju, ykkar Hösmagi.

Saturday, August 06, 2005

 

Fiskurinn sem hvarf.... og birtist á ný.

Mið nótt og myrkur úti. Nú var það ég sem vakti Raikonen. Var þreyttur eftir morgunævintýri og sofnaði kl 6 í gær. Ég hélt að árbakkanum kl. 7 í gærmorgun. Svolítið kalt en tvær lopapeysur og úlpa gerðu tilveruna yndislega. Mjög dauft yfir fiskinum og eins og áin væri algjörlega fiskvana. Seinni hluta vaktarinnar hélt ég til í Lögmannshlíð. Magnaður staður þar sem mörg ævintýri hafa gerst. Kl. korter yfir tólf byrjað laxinn að sjúga ánamaðkinn. Lagði svo af stað með hann upp ána og ég taldi víst að hann hefði rennt honum niður. Hagaði sér þó einkennilega, stökk tvisar uppúr og að lokum hvarf hann. Ánamaðkurinn eins og barið buff það sem eftir var af honum. Í ördeyðu finnst manni þetta fúlt. Loksins þegar vart verður við líf þá slokknar það bara aftur. En ég hugsaði með mér að sennilega hefði kauði ekki farið langt. Setti 2 stóra og feita maðka á krókinn. Renndi svo þar sem laxinn hafði sleppt. Og viti menn. Hann byrjaði strax að totta aftur. Og lagði aftur af stað. Nú þóttist ég öruggur. Hélt við fiskinn og þokaði mér aftur að háfnum. Passaði uppá að láta ekki koma slaka á línuna. Eftir nokkurn barning kom ég háfnum undir hann. Og þá skeði það sem ég átti von á. Agnið losnaði frá fiskinum. Hann datt oní háfinn og ég svipti honum á land. Fallegur 7 punda hængur. Ég var sem sagt búinn að veiða sama fiskinn tvisvar. Stundum lætur laxinn svona. Honum varð að vísu hált á þessu framferði. En Laxaspillir var óhemjuglaður með feng sinn. Eins og hann hefði farið holu í höggi.Þetta er það skemmtilegasta við veiðiskapinn. Eitthvað óvænt og tvísýnt. Enn eins og ég sagði um daginn þá tapar maður líka stundum. Þarna var veiðigyðjan mér hliðholl. Veitti mér einhverskonar andlega fullnægingu. Fyrir gamla veiðirefi þá er þessi andlega fullnæging enn betri en hin. Enda svaf ég löngum og draumlausum svefni eftir þennan indæla morgun. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Friday, August 05, 2005

 

Upprifjun.

Undirritaður fór norður í Húnavatnssýslu í gær. Skoðaði þar jörð við Miðfjarðará. Aldrei veitt í henni en á það vonandi eftir á gamals aldri. Ýmislegt rifjaðist upp á leiðinni norður. Veður var þokkalegt en nokkur kaldi. Þoka var á Holtavörðuheiði á norðurleið. Söng blautlegt kvæði um ráðskonuna á Holtavörðuheiðinni. Og samskipti hennar við vegagerðarmenn. Við mælingamenn Orkustofnunar sungum gjarnan þetta kvæði þegar við ókum þessa leið. Svo datt mér kaupfélagsstjórinn á Borðeyri í hug. Ágætiskall sem gaf okkur brjóstsykur. Sköllóttur með haus eins og fótbolta. Fornihvammur horfinn af yfirborði jarðar. Líklega er nú vatnið jafn gott og það var. Steinefnaríkt og örugglega bráðhollasta drykkjarvatn á Íslandi. Þetta var sprettur uppá 472 kílómetra. Sé eftir að hafa ekki þegið bjúgun sem frúin var að sjóða. Þjóðvegasjoppufæðið er heldur lélegt á Íslandi. Endaði í smurðu brauði á Litlu Kaffistofunni í Svínahrauni. Alltaf gott að fá sér eitthvað þar. Heimilislegt og heimabakað. Raikonen varð kátur við að sjá fóstra sinn koma heim aftur. Fer oftast heim í hádeginu en ekki í gær. Virðraði hann vel snemma í morgun. Sem betur fer sýnist mér hann skíthræddur við bíla. Keypti hálsól í fyrradag. Svo þarf hann skráningu og kennitölu frá bæjarsjórninni. Líklega fingra- og fótaför að auki. Kettir eru nefnilega stórvarasamir að mati bæjarstjórnarinnar. Bönnuðu kattahald í fyrra. Hægt að fá undanþágu með því að leggjast flatur og væla. Þeim er örugglega ekki sjálfrátt þessum andskotum. Dýr bæjarstjórnarinnar er veiðibjallan. Elskuð og virt þar á bæ. A.m.k. væri það stórglæpur að stugga við henni þó hún sé orðin meiriháttarplága í bæjarfélaginu. Ekki von á góðu með samfylkingu og framsókn í einni sæng. Vonandi verður bæjarstjórnin rassskellt opinberlega á næsta ári. Farinn í mat. Hösi.

Monday, August 01, 2005

 

Fiskurinn sem hvarf.

Enn var ég við laxveiði í gær. Frá 7 til 13. Vatnið orðið gott aftur og veðrið þokkalegt. Hlýtt en dimmt yfir. Klukkan hálfníu stökk laxinn á túpuna góðu. Þessa einu sönnu. Uppáhaldsagnið. Þetta var fallegur fiskur, silfurgljáandi 7-8 punda lax. Og hann var líka nokkuð klókur. Reyndi strax að hrista úr sér túpuna. Hreinsaði sig þrisvar upp úr ánni. Synti að bakkanum og barðist um í grjótinu. Ég hugsaði méð mér að þessi væri nú líklega vel fastur á litlu kræjunni. En honum tókst ætlunarverk sitt. Náði að losa sig af krækjunni. Ég varð hugsi yfir þessum líflega og fallega fiski. Hann átti skilið að sleppa. Verður mér miklu minnistæðari en hinir sem ég hef veitt í sumar. Ég þekki menn sem verða vondir þegar þetta gerist. Hafa allt á hornum sér og geðprýðin fer veg allrar veraldar. Og ég skal segja ykkur það að slíkir menn ættu að fást við eitthvað annað en stangveiði. Ég hef löngu lært það að stundum tapar maður. Líklega bara ágætt því annars dytti spennan úr þessari iðju. Kem ævinlega sáttur heim þó öngullinn sé stundum í afturendanum. Öll hin skiptin bæta það upp. Ætla svo aftur seinnipartinn í dag. Raikonen sofnaður hér á borðinu eftir langan rannsóknarleiðangur í morgun. Gerist æ djarfara útivistardýr með hverjum daginum. Sefur þó ekki fastar en það að malmaskínan er í fullum gangi. Skáldið væntanlegt um hádegi að fá Grána léðan. Frauðkassi fullur af ísmulningi fylgir. Og svo kemur 12. ágúst og þá verður enn haldið á hálendið. Sannarlega tilhlökkunarefni. Bestu kveðjur að sinni, Hösmagi, hress að vanda.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online