Monday, August 01, 2005

 

Fiskurinn sem hvarf.

Enn var ég við laxveiði í gær. Frá 7 til 13. Vatnið orðið gott aftur og veðrið þokkalegt. Hlýtt en dimmt yfir. Klukkan hálfníu stökk laxinn á túpuna góðu. Þessa einu sönnu. Uppáhaldsagnið. Þetta var fallegur fiskur, silfurgljáandi 7-8 punda lax. Og hann var líka nokkuð klókur. Reyndi strax að hrista úr sér túpuna. Hreinsaði sig þrisvar upp úr ánni. Synti að bakkanum og barðist um í grjótinu. Ég hugsaði méð mér að þessi væri nú líklega vel fastur á litlu kræjunni. En honum tókst ætlunarverk sitt. Náði að losa sig af krækjunni. Ég varð hugsi yfir þessum líflega og fallega fiski. Hann átti skilið að sleppa. Verður mér miklu minnistæðari en hinir sem ég hef veitt í sumar. Ég þekki menn sem verða vondir þegar þetta gerist. Hafa allt á hornum sér og geðprýðin fer veg allrar veraldar. Og ég skal segja ykkur það að slíkir menn ættu að fást við eitthvað annað en stangveiði. Ég hef löngu lært það að stundum tapar maður. Líklega bara ágætt því annars dytti spennan úr þessari iðju. Kem ævinlega sáttur heim þó öngullinn sé stundum í afturendanum. Öll hin skiptin bæta það upp. Ætla svo aftur seinnipartinn í dag. Raikonen sofnaður hér á borðinu eftir langan rannsóknarleiðangur í morgun. Gerist æ djarfara útivistardýr með hverjum daginum. Sefur þó ekki fastar en það að malmaskínan er í fullum gangi. Skáldið væntanlegt um hádegi að fá Grána léðan. Frauðkassi fullur af ísmulningi fylgir. Og svo kemur 12. ágúst og þá verður enn haldið á hálendið. Sannarlega tilhlökkunarefni. Bestu kveðjur að sinni, Hösmagi, hress að vanda.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online