Wednesday, August 24, 2005

 

Norðanátt.

Nú er komin hér norðanátt. Ágætistilbreyting eftir votviðrið að undanförnu. Frekar svalt en sólin komin upp. Þetta sumar hefur liðið með ógnarhraða. Þrátt fyrir risjótta veðráttu hefur þetta verið gott sumar. Eytt miklum tíma með Herconinn í höndunum og frystikistan orðin bólgin af fiski. Veiðivatnaurriðinn er frábærlega góður reyktur. Upplagt að láta reykja þessa stóru sem voru svo vænir að bíta á hjá mér. Það er mikil upplifun fyrir ástríðufullan veiðmann þegar svona stór urriði tekur 50-60 metra útí vatninu. Stekkur og sýnir sig. Maður hugsar hvort takast muni að þoka ferlíkinu til lands. Og þegar það tekst kemur yfir mann þessi andlega fullnæging sem ég minntist á um daginn. Kötturinn Raikonen kominn inn aftur. Opna fyrir honum dyrnar og hann viðrar sig. Og þegar inn er komið tekur hann til við þrif á sjálfum sér. Alltaf fundist ljúft að sjá ketti þrífa sig. Allar flugur eru í hættu þegar Raikonen er nærri.Fyndið að sjá hann veiða þær en ekki sérlega fallegt að sjá hann éta þær. Virðist þó ekki verða meint af. En ég öfunda hann ekki sérlega af þessari fæðu. Silungurinn þrífst vel af flugunni. Og þegar ég var að vinna norður í Mývatnssveit hérna í den var nú vargurinn iðinn við að setjast á nestið okkar. Menn reyndu að plokka flugurnar af brauði og kjúklingum. Ég sá fljótt að það var vonlaust verk. Tók þá ákvöðun að láta slag standa og át bara mývarginn með.Þetta komst uppí vana og mér leið prýðilega. Sumir sveltu sig frekar en að éta varginn með. Ég kíkti í veiðibókina við Ölfusá í morgun. Laxarnir orðnir 150 og einn hafði dregið 5 stykki í fyrradag. Fylltist strax löngun til að spreyta mig. Starfið kemur þó í veg fyrir það í bili. Mun samt reyna einhverndaginn. Gott að geta treint vertíðina eins langt og hægt er. Svo hefst bara 9 mánaða meðgöngutími á ný. Það er þó stundum hægt að stytta sér biðina með því að fara í Tangavatn. 1998 fór ég til veiða 20. desember. Blankalogn, 8 stiga hiti og ekki snjókorn á jörðu. Og silungurinn var grandalaus. Reiknaði ekki með veiðimanni á þessum tíma. Mokveiddi og aflinn var flakaður, reyktur og notaður í 2 útskriftarveislum. (Sölvi og Begga.). Þessi dagur er enn sterkur í minningunni, eins og reyndar fleiri. Var þarna aleinn í kyrðinni og hafði vatnið fyrir mig einan. En það er líka ákaflega ljúft að vera í góðum félagsskap við veiði. Það sannast best á hinum rómaða 3ja stanga degi í Ölfusá og í Veiðivötnum þegar synirnir eru með. Rifjum það allt upp aftur á næsta ári. Bestu kveðjur, Hösmagi, hress að vanda á fallegum morgni.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online