Monday, August 22, 2005
Stundum rætast draumar..
Ég dreif mig inní Veiðivötn aftur á föstudaginn. Ók inneftir á mettíma. Ætla ekki að opinbera tímann ef lögguskrattinn les þetta. Ég átti mér draum um að veiða stóran urriða. Ætlaði að sætta mig við litla heildarveiði ef ég fengi stóran fisk. Byrjaði í Ónýtavatni. Sá þar fallegan fisk og fékk högg á spúninn. Gafst upp eftir einn og hálfan tíma og hélt á góðan stað í Ónefndavatni. Varð hugsað til þess þegar Sölvi stakk sér þarna í vatnið fyrir nokkrum árum. Á eftir stönginni sem brunað hafði útí vatnið. Hann kom uppúr aftur með stöngina og 9 punda urriða á línunni. Fyrst í stað gerðist ekkert. En ekki leið á mjög löngu þegar heljarbolti hremmdi beituna. Og Fiskihrellir varð glaður og ákafur. Á miðri leið sleit urriðinn línuna. Líklega komið brot í hana eftir flækjur í síðasta túr. Þetta á auðvitað ekki að henda góða veiðimenn og afleitt að skilja öngul og línu eftir í fiski. Undir klukkan 7 gein tveggja pundari við agninu. Og nokkru síðar átti annar erindi við mig. Hann var 3,2 kg. Feiknafallegur fiskur af gamla stofninum. Og enn gerðust undur. Sá næsti var 3,8 kg. Draumurinn rættist og Fiskihrellir var strax orðinn sáttur við veiðina.Veiðiverðir urðu glaðir og undrandi að sjá þessa fallegu veiði. Að morgni laugardags var tekinn rúntur um Hraunvötnin. Reynt í stóra vatninu og Rauðagíg. Árangur enginn.Hélt afram meðfram Langasjó og aftur að Ónýtavatni. Klukkan 11 landaði ég 3ja stórurriðanum. 3,8 kg. Svo gerðist ekkert í marga klukkutíma. Milli hálfsex og hálfsjö var hann aftur við. 3 tveggjapundarar og fjögra pundari. Og til að kóróna þennan frábæra dag kom sá sjötti, 3,6 kg. Ég var í skýjunum. Og er reyndar enn. Á sunnudagsmorguninn gerðist nánast ekkert og Fiskihrellir hélt til byggða klukkan hálftvö. Alsæll með indæla veiðiferð og frábærlega góðan afla. Þetta voru vertíðarlok í stangveiðinni þetta árið. Því miður koma nú bændur með net sín. En við því er lítið að gera. Vona bara að þeir skilji nokkra væna eftir handa okkur stangveiðmönnum á næsta sumri. Veður var nokkuð gott miðað við árstíma. Og töfrar Veiðivatna eru ólýsanlegir. Nánast hluti af góðri tilveru þeirra sem hafa komið þar. Seiða mann til sín aftur og aftur. Hlakka strax til næstu ferðar í júli á næsta ári. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.