Monday, August 08, 2005
Köttur á veiðum.
Nú er orðið ansi dimmt á nóttunni. Og blautt. Ánamaðkar uppá yfirborði jarðar og á yfirborði maðkafötunnar. Ég verð að geyma maðkafötuna á svölunum því það er allt of heitt í bílskúrnum. Og Raikonen var að uppgötva fötuna. Ég sat í makindum og þjóraði næturkaffi og kastaði teningum. Ég veitti því skyndilega athygli að kisi var að leika sér að einhverju á stofugólfinu. Það reyndist vera spriklandi ánamaðkur. Hann varð nú ekki beinlínis kátur þegar ég tók af honum þetta skemmtilega leikfang sem iðaði í skinni sínu. Varð að fjarlægja fötuna og kisi vældi og mændi á fóstra sinn. Botnaði ekkert í þessu harðneskjulega athæfi. Minnti mig á maðkatínsluna á Skólavöllunum fyrir margt löngu. Hafði sjaldnast frið við maðkaleitina fyrir Hösmaga sem þá var ungur. Kom í löngum stökkum til mín og fældi maðkinn niður í jörðina.Og ég skammaðist. Það eru sem sagt fleiri en ég sem hafa gaman af veiðum. Nú styttist í síðustu Veiðivatnaferð Grána á þessu ári. Nokkuð góð spá fyrir föstudaginn en rigningarspá á laugardag. Vona bara það besta og verð að fara að undirbúa leiðangurinn. Ætla að biðja stóra bróður að heimsækja Raikonen. Svona til að hann fái smáfélagsskap. Félagsvera hann kisi minn. Og matgæðingur. Það var bara normalbrauð í kvöldmat hér í gær. Og sardínur oná það. Raikonen fann einhverja ljúffenga lykt. Og hann fékk að sjálfsögðu sardínur. Malaði ánægjulega eftir að hafa sporðrennt tveim þeim síðustu. En hann er ekki hrifinn af banönum. Fæ að éta þá í friði. Verður skemmtilega grettinn á svip ef hann hnusar af þeim. Eins og þið sjáið af þessum skrifum þá er dýrið mitt mér ofarlega í huga. Sönn vinátta hefur myndast. Ætla að reyna að ala kisa vel upp. Læt þó flest eftir honum þó agi verði líka að vera. Erill í vinnu þessa dagana. Bara ágætt. Andrúmsloftið með betra móti meðan peningarnir streyma í kassann. Jæja, andleysið að ná yfirhöndinni svo best er að slá botninn í. Með kveðju, ykkar Hösmagi.