Saturday, August 06, 2005
Fiskurinn sem hvarf.... og birtist á ný.
Mið nótt og myrkur úti. Nú var það ég sem vakti Raikonen. Var þreyttur eftir morgunævintýri og sofnaði kl 6 í gær. Ég hélt að árbakkanum kl. 7 í gærmorgun. Svolítið kalt en tvær lopapeysur og úlpa gerðu tilveruna yndislega. Mjög dauft yfir fiskinum og eins og áin væri algjörlega fiskvana. Seinni hluta vaktarinnar hélt ég til í Lögmannshlíð. Magnaður staður þar sem mörg ævintýri hafa gerst. Kl. korter yfir tólf byrjað laxinn að sjúga ánamaðkinn. Lagði svo af stað með hann upp ána og ég taldi víst að hann hefði rennt honum niður. Hagaði sér þó einkennilega, stökk tvisar uppúr og að lokum hvarf hann. Ánamaðkurinn eins og barið buff það sem eftir var af honum. Í ördeyðu finnst manni þetta fúlt. Loksins þegar vart verður við líf þá slokknar það bara aftur. En ég hugsaði með mér að sennilega hefði kauði ekki farið langt. Setti 2 stóra og feita maðka á krókinn. Renndi svo þar sem laxinn hafði sleppt. Og viti menn. Hann byrjaði strax að totta aftur. Og lagði aftur af stað. Nú þóttist ég öruggur. Hélt við fiskinn og þokaði mér aftur að háfnum. Passaði uppá að láta ekki koma slaka á línuna. Eftir nokkurn barning kom ég háfnum undir hann. Og þá skeði það sem ég átti von á. Agnið losnaði frá fiskinum. Hann datt oní háfinn og ég svipti honum á land. Fallegur 7 punda hængur. Ég var sem sagt búinn að veiða sama fiskinn tvisvar. Stundum lætur laxinn svona. Honum varð að vísu hált á þessu framferði. En Laxaspillir var óhemjuglaður með feng sinn. Eins og hann hefði farið holu í höggi.Þetta er það skemmtilegasta við veiðiskapinn. Eitthvað óvænt og tvísýnt. Enn eins og ég sagði um daginn þá tapar maður líka stundum. Þarna var veiðigyðjan mér hliðholl. Veitti mér einhverskonar andlega fullnægingu. Fyrir gamla veiðirefi þá er þessi andlega fullnæging enn betri en hin. Enda svaf ég löngum og draumlausum svefni eftir þennan indæla morgun. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.