Friday, September 26, 2008

 

Salt jarðar.

Undirritaður hefur verið nokkuð saltsækinn gegnum tíðina. Hætt til að ofsalta matinn. Reyndar hefur dregið úr þessu hin seinni ár. Aldurinn á örugglega sinn þátt í því auk áróðursins gegn salti í þjóðfélagsumræðunni. Ég sauð eitt ýsuflak í gær. Setti að mér fannst mátulega mikið af grófu salti með flakinu. Þegar fiskurinn var soðinn var kisi löngu farinn að ókyrrast. Ilmurinn var indæll. Það var með naumindum að mér tækist að skera stykki af flakinu og kæla það undir kaldavatnskrananum. En kötturinn vildi nánast ekkert við þetta eiga. Ástæðan kom í ljós. Brimsalt flak sem ég neyddi sjálfan mig til að borða. Kartöflurnar og smjörið björguðu mér fyrir horn.Ég hellti vatninu strax af restinni og er enn að útvatna hana. Mögulega æt í kvöld. Ég á einhvern slatta af fiski í kistunni. Framvegis mun ég ekki salta neitt við fisksuðu. Borðsaltið verður að duga. Kimi étur nú hitt og annað. T.d. skyr, hákarl og lakkrís. Þurrfóðrið er þó uppistaðan. Ég hafði hálfgert samviskubit eftir mistökin í gærkvöldi. Bæti kisa mínum þetta upp bráðlega.
Hálfgert hrakviðri í dag. Leiðinlegast er rokið enda hef ég ekki farið út úr dyrum í dag. Það er nánast einsdæmi í mörg ár. A.m.k miðað við heilsufar. Kimi rak út nefið í nokkrar mínútur og fannst nóg um. Myrkrið er nú orðið lengra en birtan. Haustjafndægur nýfarið framhjá. Það styttist í merkisafmæli skáldsins. Sumum finnast merkisafmæli bara alveg voðaleg. En þá koma bara 10 góð ár í það næsta og svo framvegis. Annars hefur þessi dagur verið ágætur hér innan dyra. M.a. samdi ég skjal sem ég hef aldrei gert áður. Harla ánægður þegar því var lokið. Vandvirknin verður að vera í öndvegi enda marglas ég skjalið yfir áður en ég prentaði það út. Tel það lagalega alveg skothelt. Ég mun geta keypt heilmikið af salti fyrir launin fyrir þessa skemmtilegu skjalagerð. Læt duga í gúrkutíðinni. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, þú hefur nú löngum verið andstæða föður þíns hvað saltástina varðar en kannski ekki svo ólíkur honum á suman annan hátt. Til dæmis í ástinni á tölum og bílum. Tölurnar og saltið eru svo í nokkrum hávegum hérna megin en þegar kemur að bílum eru það helst fornbílar sem höfða til mín, til að mynda gult rúgbrauð af Volgswagen gerð með krónstuðara og kringlóttum ljósum. Væri alveg til í svoleiðsis! En svo fer maður að hugsa: þá þarf ég að kunna að skipta um viftureim. Svona er nú lífið stundum flókið.
 
Ef ég segi að ég poppi Orvilles ca. 300 kvöld ársins er ég sennilega ekki langt frá sannleikanum. Og ef það kemur brimsaltur asskoti úr pokanum er til hamingjusamur maður í póstnúmeri 210. Salt er gott. Er hins vegar ekki hrifinn af gulu rúgbrauði og lifrarpylsu. Svona er nú lífið stundum einfalt.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online