Thursday, September 25, 2008

 

Haust.

Það haustar að. September er nú oft fallegur mánuður. Þegar ég vaknaði klukkan hálfátta í morgun var sólin komin upp og nokkurnveginn logn.Hitastigið þó aðeins 3,3 gráður.Mikið rignt unanfarna daga og Ölfusá nánast bakkafull. Ákaflega fallegur regnbogi yfir Ingólfsfjalli. Fjallinu sem færði Selfoss 17 cm til austurs í jarðskjálftanum þann 29. maí. Auk þess reis landið um 6 cm. Manni finnst þetta skrítið en föstu mælipunktarnir sýna þetta. Ég ætla að vona að allt verði kyrrt næstu árin. Í dag ætla ég að byrja á verkefni hér heima. Tek það eins og venjulega 9-5 vinnu. Þetta mun taka 2-3 vikur og ég er þá ekki aðgerðalítill á meðan. Allt þó enn óráðið um framtíðaratvinnu. Bjartsýnin er þó að ná völdum á ný eftir depurð undanfarinna vikna. Ég hef oft sagt það hér að þó stundum blási á móti leggst manni yfirleitt alltaf eitthvað til. Ég fer í sneiðmyndatökuna á mánudagsmorgun og er ekki kvíðafullur yfir því.
Ég sagði frá baráttunni við þvottavélina hérna um daginn. Reikningurinn barst mér í hendur í gær. Eindagi hans er 4. október. Innheimtugjald kr. 140 og vanskilagjald kr. 400. Ég er farinn að skoða alla reikninga gaumgæfilega. Hvernig má það vera að leggja vanskilagjald á ógjaldfallinn reikning. Líklega bara hluti af hinu nýja siðferði bankanna. Ég mun að sjálfsögðu ekki greiða þessar 400 kr. Ég hef reyndar rekið mig á þetta áður nú á hinum síðustu tímum. Sennilega eru margir sem greiða bara reikningana orðalaust. Það ætti þó enginn að gera ef reikningurinn er ekki réttur. Í gærmorgun hafði ég grun um að eldsneytið myndi hækka. Ég tók bensín hjá Atlandsolíu á Lancerinn. Lítraverðið 159,1 kr. Eftir hádegið frétti ég af hækkun hjá Skeljungi og N 1. Ég fór aftur á grænu þrumunni til að fylla hana. Atlandsolía er líklega enn verr haldin en hinn hluti olíumafíunnar. Verðið komið í 164,1 kr. Þeir höfðu sem sagt hækkað enn meira en eldri hluti mafíunnar.
Það er nánast sama hvar tekið er niður. Allt hækkar nema laun hins venjulega vinnandi manns. Og það má alls ekki hreyfa við grundvelli neysluvísitölunnar. Það er þó tæki sem hægt er að nota til að létta hinum vinnandi stéttum lífið. En ríkisstjórnin er við sama heygarðshornið. Spókar sig í útlöndum að venju og hefur litar áhyggjur af okkur lýðnum. Ég ætla þó sannarlega að óska Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata. Líklega nóg bloggað að sinni. Kærar kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eins og einhver snillingurinn komst að orði um daginn þá er búið að einkavæða hagnaðinn en þjóðnýta tapið. Það þarf einhver að borga 300 millurnar hans Lárusar Welding. Í hverju felst verkefnið mikla, ef maður má spyrja?
 
Því miður eru of mörg eintök af þeirri gerð stjórnmálamanna hér sem varðar ekki um neitt nema sinn eigin hag og nokkurra vildarvina sinna. Ég gæti haldið langa ræðu um þetta og nefnt mörg dæmi. Það tæki mig allan daginn svo ég læt þetta nægja.
 
Er þetta ekki tilvalið dæmi til að senda Dr. Gunna á okursíðuna hans? Vanskilagjald þrátt fyrir engin vanskil. Dæmalaus ósvífni.

Kveðjur annars frá öðrum frílansara í öðru landi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online