Tuesday, September 30, 2008

 

Nepja.

Það er svalt. Ég var að þvo grænu þrumuna eftir ferð gærdagsins. Krókloppinn á lúkunum þrátt fyir volgt vatn í svampinum. Þetta er þó ágætisveður meðan engin er úrkoman. Tilfinning mín gagnvart snjónum er óbreytt. Einhver var að spá hörðum vetri og miklum snjó. Ég vona að sá kauði hafi rangt fyrir sér. Ég kom við í banka í morgun. Eiginlega til að tryggja að ákveðnir hlutir væru eins og þeir áttu að vera. Ég kom líka í þennan banka þann 1. september og ætlaði að taka þar út peninga sem ég á þar á sérstökum reikningi. Því miður var það ekki hægt. Það mátti einungis taka þessa aura út á síðasta degi mánaðar. Mér var sagt að þeir kæmu sjálfkrafa inná reikninginn. Ég var nú ekkert farinn að líta á einkabankann. Þegar ég kom í bankann var mér tjáð að einhver misskilningur væri á ferðinni. Ég hefði átt að skrifa undir einhvern bleðil sem enn vantaði. Ég skrifaði svo undir bleðilinn. Svo er hringt í mig frá bankanum og mér sagt að þetta væri of seint og ég fengi ekki aurana fyrr en 31. október. Ég varð allt að því hortugur sem gerist nú ekki oft. Mér var boðinn hærri yfirdráttarheimild. Og það kom til greina að bankinn " tæki þátt" í kostnaðinum. Þvílík vildarþjónusta. Ég gekk að þessum afarkostum og starfsmaðurinn sagðist smella heimildinni inn. Hún er ókomin. Ég verð örugglega að fara aftur í þennan blessaða banka áður en lokað verður í dag. Það er margt undarlegt í þessu þjóðfélagi um þessar mundir. Og efni í marga bloggpistla í hausnum á mér. En ég ætla að hvíla sjálfan mig og nokkra trygga lesendur mína á tuði um þessa hluti. Kannski dettur mér eitthvað skemmtilegt í hug. Eitthvað jákvætt og uppbyggjandi. Þessi bloggskrif hafa verið hluti af minni tilveru í bráðum 4 ár. Eins konar dagbók sem ég hef stundum flett uppí. Ég er alls ekki hættur. Bestu kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online