Saturday, March 01, 2008

 

Svefn.

Það er gott að sofa. Einkum um helgar þegar hægt er skjóta þrældómnum til hliðar.Það var letilíf á okkur Kimi í gær. Sváfum og lékum okkur á víxl. Ég fór að hugsa hvað yrði um allar bréfkúlurnar sem ég hef hnoðað handa dýrinu til að eltast við. Tók fram tommustokk og krakaði undir ísskápinn. Það varð uppistand.Tugir kúlna í mörgum litum og hamflettar flískúlur að auki.Það urðu bara veisluhöld hjá Kimi. Flískápa af kúlu er mikið dýrmæti. Þar að auki var nammidagur.Rækjurnar eru alltaf jafn góðar. Svo sváfum við milli 5 og 9 og frá miðnætti til morguns og erum því yfirhressir nú.Veðrið á sömu nótum en þó engin ofankoma.Nú fer þetta að koma og vorið mun þrykkja sér inní tilveruna eftir tæpar 3 vikur. Það var opnað fyrir netframtalið í gær. Langt kominn með eigið framtal. Ekki flókið nú orðið eftir að ég gerðist launamaður hjá Hösmaga ehf.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur traust 9% kjósenda. En það gerir ekkert til. Hann ætlar að endurvinna traustið. Borgarstjórinn heilsandi handboltaliðunum í sjónvarpinu í gær. Með bros á vör. En alveg ómeðvitaður um stöðuna. Mér detta í hug Dostojevskí og Kafka. Ef fram fer sem horfir verður afhroð hans og íhaldsins mikið. Það er þó ljós í svartnættinu. Meðan borgarfulltrúarnir geta ekki komið sér saman um eitt eða neitt og vega hver annan í bróðerni rekur allt á reiðanum.Eftir 6 vikur stendur það eitt að hafa kastað hálfum milljarði út um gluggann. Grátlegt fyrir reykvíkinga.

Eftir ljóðrænu Jóns Kalmans tók Þráinn Bertelsson við. Eiturlyf, lík og afslitnir limir. Kannski kemur skýrsla um þennan glæpakrimma Þráins að lestri loknum. Of fljótt að dæma eftir að hafa lesið þriðjunginn. Ég ætla þó ekki að bókablogga. Læt það færara fólki eftir. Ég ætla að endurreisa bóklesturinn. Hef staðið mig að því að draga verulega úr honum á síðustu árum. Góðar bókmenntir eru mikil lífsgæði. Ég á eftir að njóta Jóns Kalmans og hlakka til að lesa hann meira. Fyrir utan öll hin. Tilveran er sem sagt góð um þessar mundir. Meira að segja sjónvarpið sýndi Bagdad café um daginn. Perlu innanum allt sorpið. Kannski koma grænir tómatar líka.
Nú er kominn tími að kíkja eftir sauðunum. Smágjóla og 2ja stiga frost. Ég og Dýri biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online