Thursday, September 28, 2006

 

Betrun.

Undirritaður horfði með öðru auganu á kastljós sjónvarpsins í gærkvöldi. Fylgdist af athygli með viðtalinu við Ómar Ragnarsson og fleiri vegna tímamótaatburða við Kárahnjúkavirkjun. Mesta glapræðis í sögu þjóðarinnar. Æ fleiri eru nú að átta sig á hvað gerst hefur. Samfylkingin komin með nýtt stefnumál. Fagra Ísland skal það vera. Nú er þessi flokkur skyndilega orðinn umhverfissinnaður. Flokkurinn sem studdi frumvarpið um þessa virkjun. Gæti það hugsast að nú eigi að snúa við blaðinu af því kosningar eru framundan? Ingibjörg útbrunna sagði á sínum tíma að hún vildi ekki setja fótinn fyrir þetta mál. Þegar fréttamaður spurði hana um hvort hið nýja slagorð væri trúverðugt í ljósi fyrri afstöðu svaraði hún því einvörðungu á þann veg að batnandi manni væri best að lifa. Að sjálfsögðu snilldarsvar hjá þessum kulnaða vúlkan. Þessar sjónhverfingar munu ekki skila miklu. Umhverfissinnar láta ekki villa sér sýn. Þeir munu kjósa rétt. Við munum vinna þetta stríð að lokum.
Það voru fleiri viðtöl í þessum þætti. Við mann sem gerði smámistök. Það er búið að leiðrétta þau. Hann er nú miklu betri maður en áður. Hann elskar meira að segja þjóðina heitar en sjálfan sig. Enda stritað fyrir hana alla sína ævi. Og verður líka miklu betri þingmaður en áður. Aldeilis flott viðbót við allt mannval íhaldsins hér í Suðurkjördæmi. Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort ég sé staddur í miðju leikriti eftir Dostojevskí. Ekki svo að skilja að mér sé ekki sama um velferð íhaldsins hér. Það er ekki minn flokkur. En ég kenni í brjósti um margt ágætt fólk sem ég þekki og styður þennan flokk. Þetta er þeirra vandi en ekki minn. Nú hefur Atli Gíslason, lögmaður orðið við áskorunum að fara í framboð fyrir VG hér í kjördæminu. Ég þekki hann persónulega frá gamalli tíð úr lagadeildinni. Umhverfissinni, heiðursmaður og mannvinur. Kannski finnst einhverjum pólitískum andstæðingum hans þó einn ljóður á ráði hans. Hann hefur nefnilega aldrei verið dæmdur í tugthús. Og það gæti háð honum við að verða betri maður.
Kveðjur úr næturkyrrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sumir stjórnmálamenn eru dæmdir harðar en aðrir, og þar held ég að Ingibjörg gjaldi bæði kyns og því að hafa verið stillt upp við vegg á sínum tíma. Minni á að Ólafur Ragnar gerði ekkert gegn þessu máli heldur þótt hann hafi hafnað fjölmiðlafrumvarpinu og stimplað sig þannig inn sem pólitískan forseta. Ef við viljum vinstri stjórn verðum við að fá bæði Samfylkingu og Vinstri græna í hana, og það eru okkar hagsmunir að báðir flokkarnir njóti sannmælis. Sem borgarstjóri gerði Ingöbjörg það sem flestir hefðu gert í hennar stöðu, því sem slíkur var hún í forsvari fyrir Landsvirkjun, þar sem borgin er stór hluthafi. Henni var því illa stillt upp á milli tveggja póla. Að hún sé útbrunninn er svo bara vitleysa sem á sér helst stoð í slæmri hagstjórn innan forystu Samfylkingarinnar sjálfrar - ímynd hennar bar hnekki í augum almennings en um það má líka kenna heimskulegri hagsmunabaráttu í flokksforustunni. Allt vinstra fólk ætti að fagna stjórnmálamanni eins og Ingibjörgu, því þótt hún sé ef til vill hægri sinnaðri en sumir kjósa að hafa hana, og taki kannski diplómatískari afstöðu á stundum en til dæmis Steingrímur J., þá er ekki mikið um svo skörulega stjórnmálamenn, og betra að hún sé á miðjunni en til hægri. Því er enginn akkur í að sverta hana með svona tali. Þú veist jafnvel og ég að Vinstri grænir munu aldrei ná hreinum meirihluta á þingi.

Hitt er svo annað mál að ég býst við því núna að kjósa Vinstri græna næsta vor, þrátt fyrir ýmislegt sem mér líkar minna við í stefnumálum þess flokks. Umhverfismálin vega þungt og efnishyggjan hér að gera út af við alla samúð í þjóðfélaginu. Sterk vinstri stjórn er því málið. Svo áfram Steingrímur J. - OG áfram Ingbjörg. Heldurðu að Sjálfstæðimenn hefði haft þessi völd hér síðustu 15 árin ef þeir dæmdu sína menn jafn hart og sumt vinstra fólk dæmir Ingöbjörgu?
 
Rétt að VG hefur haft sigur í umhverfismálunum og Sf. er ótrúverðug í sama málaflokki. Kannski myndi maður kjósa VG ef hann væri hreinræktaður umhverfisflokkur eins og tíðkast víðast hvar í Evrópu. Hins vegar byggist hugmyndafræðin að öðru leyti á gamaldags sósíalisma sem ómögulegt er að skrifa undir að mínu mati (Hösmagi er væntanlega hjartanlega ósammála mér). Minni líka á að VG hafa nú líka hlaupið undan sér í umhverfismálunum sjálfum, sbr. bæjarfulltrúa flokksins á Húsavík sem alveg endilega vill fá Álver við sínar bæjardyr og ekki er hluti Akureyrargrúppu VG skárri í umhverfisstefnu sinni.
Fyrir utan umhverfisstefnuna þykir mér Samfylkingin hins vegar vera langbesti kosturinn. Glæsilegt var t.d. um daginn að fylgjast með kjarki flokksins í því að takast á við landbúnaðarmafíuna til hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Ég sæi það aldrei gerast að VG myndi þora að leggja til að skerða ofurstyrki til landbúnaðarins til hagsbóta fyrir neytendur. Og svo kemur auðvitað til stuðningur Sf. við ESB og pragmatísk sýn á hlutina í stað falsins sem í því felst að hafa eina stefnu í stjórnarandstöðu en kúgvenda síðan þegar í stjórn er komið (Ég minni t.d. á að Steingrímur J. sat í þeirri ríkisstjórn sem samþykkti fyrra Persaflóastríðið 1990. Hver voru rök hans fyrir því?). Ekki það að ég sé að halda því fram að Sf. geti verið síður tvöfaldir í roðinu en tilhneigingin er sú halda því fram að VG séu eitthvað sérstaklega samkvæmir sjálfum sér og trúir sínum málstað þegar að kjötkötlunum er komið. Sagan sýnir því miður annað.
Vinstri stjórn er hins vegar óskin. Þar gætu VG komið sterkir inn í menningar, mennta og umhverfismálum en yrði vonandi haldið sem lengst frá fjármálum, utanríkismálum svo ekki sé nú talað um landbúnaðar- og byggðamál.
Hryllilegast við slíka vinstri stjórn væri hins vegar að þurfa að velja á milli popúlistanna í Frjálslyndum og Framsóknar (það þarf ekki að tíunda galla Framsóknar).
Jæja, meira en nóg í bili
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online