Friday, February 03, 2006

 

Sjón er sögu ríkari.....

segir máltækið. Í vikunni skrapp undirritaður niður á strönd. Alltaf gott að anda að sér þaralyktinni og kíkja til sjávar. Ég var sendur til að verðmeta hús sem stendur við götu sem heitir Bakarísstígur. Svolítið skemmtilegt nafn á götu. Húsið er nr. 4a og er byggt árið 1910. Fremur lágreist timburhús, en vinalegt og í nokkuð góðu ástandi. Þetta hús hefur greinilega sál. Gæti vel trúað að þar væri hægt að hlusta á nið aldanna eins og Þórbergur forðum í Bergshúsi. Eigandi hússins er rithöfundurinn Sjón. Sigurjón B. Sigurðsson. Hann var einn heima á bænum er mig bar að garði. Fartölvan opin á litlum kontór. Þarna situr þessi verðlaunahöfundur og skrifar. Ég snobba hvorki uppávið eða niður. En það var gaman að hitta þennan mann. Viðræðugóður og þægilegur. Og auðvitað varð ég að koma því að að ég ætti skáld. Sjón kannaðist við piltinn og bar mig bera honum kveðju sína til Gotlands. Sagðist hafa verið í Visby í fyrra og lét ákaflega vel af staðnum. Ætli eyjabúar kunni ekki best við sig á eyjum. Ísland, Bretlandseyjar, Gotland og Rhodos. Vestmannaeyjar og Mallorka. Gæti best trúað að erfiðara sé að fá inspírasjónir á miðju meginlandinu. Ég þorði nú ekki eða vildi ekki spyrja skáldið hvað hann væri að skrifa. Við komumst að því seinna.
Voðalega finnst mér fólk vera vont við hann Viggó greyið. Það var alveg rétt hjá honum að þessir dómaraskrattar voru afleitir. Ég hef mikið álit á Viggó sem þjálfara. En ég hef ekki mikið álit á honum sem venjulegum manni. Hann hefur margsinnis sýnt að hann getur ekki stjórnað sjálfum sér almennilega. En hann baðst þó afsökunar eftir að hann skandaliseraði í fluginu í fyrra. Það er meira en stjórnmálamennirnir gera. Dettur Halldór í hug. Aldrei mun hann biðja okkur afsökunar á að gerast félagar bandittanna í hópi hinna staðföstu þjóða. Það væri nær að hann segði af sér en Viggó ræfillinn. Aldrei hefur nokkur íslenskur sjórnmálamaður sagt af sér eftir að hafa skandaliserað opinberlega á fylleríi. Og eru þó mörg ærin tilefni til þess. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að stjórnarherrarnir skuli komast upp með hvað sem er. Allt ferlið í einkavæðingu ríkiseignanna á undanförnum árum er eitt allsherjarreginhneyksli. Og finnst mönnum bara allt í lagi að Dóri hafi gert sjálfan sig að múltimilla með kvótakerfinu. Líklega sumum. Leikreglur bananalýðveldisins eru einfaldar og skýrar.
Enn rignir. Hiti 6°. Við Raikonen snemma á fótum sem fyrr. Höfum það báðir alveg þrælfínt. Helgin rétt að byrja og við erum báðir búnir að viðra okkur í vætunni. Sannarlega góð tíð á miðjum Þorra. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Svona til að auka verðgildi fasteignarinnar á Eyrarbakka enn frekar þá má nefna það að tengdamóðir mín og hennar maður voru eigendur hússins góða á Eyrarbakka áður en það komst í hendur skáldsins.

Þetta er lítill heimur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online