Tuesday, February 07, 2006

 

Morgunkaffi.

Rúbín hátíðarsælkerakaffi. Fann það í hanskahólfinu á Lancernum í gær. Þar var líka eintak af Gleðileiknum, 2 bensínnótur og fleira smálegt. Ég hugsaði með mér að best væri að prófa þetta kaffi, sem skáldið af einhverjum ástæðum hafði skilið eftir i bílnum. Hellti uppá og uppgötvaði í framhaldinu að sykurlaust var á heimilinu. Flestir eru nú hættir að nota sykur í kaffið. En ekki ég. Leitaði vandlega í öllum skápum. Mundi eftir að síðast þegar sykurlaust varð fann ég kandís sem er fjári góður í kaffi. En hann var uppurinn með öllu. Sé ég þá allt í einu poka hálffullan af súkkilaðifylltum Ópalbrjóstsykri. Skellti ca. 10 hnullungum í fantinn og hellti svo kaffinu ofan á þá. Hrærði í og bætti slatta af rjóma út í. Og viti menn. Þessi hunangsblanda. Ætla nú samt að kaupa venjulega sykur í dag. Þetta varð sem sagt alveg himneskur morgundrykkur. Meira að segja Raikonen þurfti að hnusa af fantinum. Einu sinni var ég að lýsa því hvað gott væri að hafa púðursykur og rjóma í kaffi. Gömul kerling sem á hlýddi kúgaðist og gretti sig ógurlega af tilhugsuninni um þennan viðurstyggilega smekk. Gæti snú samt best trúað að hún hefði komist á bragðið. Eins og þegar ég hellti spænska spíranum yfir lakkrísbrjóstsykurinn hér um árið. Skuggalega góður drykkur. Og áhrifaríkur að auki. En ég er orðinn svo óttalegur reglumaður nú um stundir að ég læt mér kaffi og vindil nægja. En ef einhver þyrstur á leið hér við í Ástjörninni þá er ýmislegt til sem vætir kverkarnar og lífgar sálarylinn.T.d. vodka, koníak, whyskí og svokallaður eyrnamergur. Skelfilegur í fyrsta sinn en venst nokkuð vel. Þótti góður í den til að koma heilastarfseminni í lag í slæmum timburmönnum. Eða eins og gamli maðurinn sagði: Margt er mannanna bölið og misjafnt er drukkið ölið. Det er nu det.
Vetrartíðin er nú bara þokkaleg hér. Mínus 6°á Celcíus og nánast logn. Nýja bifreiðin gljáandi eins og smaragður eftir tjöruþvott og bón í gær. Og Lancerinn fær smánudd og slökun líka. Þjónar mér óhemjuvel og gengur alltaf eins og listaklukkur eiga að gera. Sannar að Japönum er nú ekki alls varnað þó undirritaður sé nú lítt hrifinn af japanskri framleiðslu.

Nú styttist í aðalfund stangveiðifélagsins. Veiðileyfi fyrir komandi sumar. Mörg. Og árangurinn vonandi eftir því. Og svo eru það Veiðivötnin. Minni skáldið á Bryndísi vinkonu okkar. Eindagi 28. febrúar. Annars ættu fátæk skáld að fá frítt svona annaðhvert ár. Væri það ekki gott framlag bænda til menningarinnar? Það finnst mér. Með sukkulaðifylltum kveðjum, ykkar fiskimaður, Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online