Monday, February 06, 2006

 

Tóm tjara.

Það versta við svona gott tíðarfar hér er andskotans tjaran sem verður til úr malbikinu á vegum og strætum. Talið er að maður spæni upp 2,7 gr. af tjöru við að aka 1 km á nagladekkjum.Töluvert sest á bílana og hitt verður svifmengun sem m.a. sest að í lungunum á fólki. Reyklausum jafnt sem reyksóðum. Nýja glæsikerran mín er orðin útötuð í tjöru. Bíladellukarli eins og undirrituðum finnst það afleitt. En fleiri hliðar eru nú á nöglunum. Að mínu mati veita þeir falskt öryggi. Geta líka virkað eins og skautar við viss skilyrði. Loftbóludekkin og harðkornadekkin hafa sannað gildi sitt. Þessvegna höfum við enga afsökun lengur fyrir því að aka um á negldum hjólbörðum. Valda bara mengun og óþarfa eyðileggingu á samgöngukerfinu.Við eigum að hætta að nota þá. Jafnvel þó að allir hafi ekki skrið- og spólvörn eins og glæsifákurinn minn.
Siggi sænski hefur orðið fyrir vonbrigðum með Jónas. Eins og fleiri. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort allt sé réttlætanlegt í nafni tjáningarfrelsis. Er ekki gamla máltækið að oft megi satt kyrrt liggja enn í fullu gildi? Þessar myndir af Múhameð spámanni hafa nú þegar valdið miklum vandræðum. Eyðileggingu og dauða og ekki séð fyrir endann á því. Ég sé ekki að heimurinn sé neitt betri eftir birtingu þessara mynda. Og mér finnst þetta sanna það sem ég hef lengi haldið fram. Ekkert hefur eyðilagt meira fyrir mannkindinni en trúarbrögðin. Þær eru margar styrjaldirnar sem háðar hafa verið í nafni þeirra. Og þar eru öll meðul leyfileg. Sagan sannar það.Stóri sannleikur er slæmur sannleikur. Og því miður mun hann verða það áfram. Og það er dapurlegt að menn eins og Jónas Kristjánsson skuli halda því fram að islam sé vond trú og allt hitt eitthvað skárra. Við skulum bara vera góð. Það er óþarfi að gera grín að því sem náunga okkar er kært. Við eigum ekki að segja klámbrandara að hvítasunnumönnum viðstöddum. Tjáningarfrelsið er að sjálfögðu afar mikilvægt. En við eigum ekki að nota það til óhæfuverka.Gætum okkar.
Hér er nú kyrrð. Þorrinn aðeins að minna okkur á tilveru sína. Hitinn nokkuð undir frostmarki en enginn snjór. Hænufetunum fjölgar þétt í átt til birtunnar. Lífið gengur sinn gang. Tjöruþvottur framundan. Kannski til þess eins að safna upp meiri tjöru. Líklega sama sagan og með okkur. Við höldum áfram að fara í sturtu. Varla friður hér til skrifta lengur. Raikonen með rautt skott kominn heim aftur og krefst athygli fóstra síns. Biðjum báðir að heilsa. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online