Monday, February 27, 2006

 

Fjallið eina.

Ingólfsfjall hefur löngum þótt fallegt fjall. Mörgum gömlum Selfyssingur svíður sárlega undan meðferðinni á fjallinu. Það er reyndar í öðru sveitarfélagi þó við teljum það eina höfuðprýði staðarins. Skemmdarverkin á fjallinu eru skólabókardæmi um gróðahyggjuna. Þessa sterku hvöt sumra manna til að verða ríkir hvað sem það kostar. Eyðilegging á fallegri náttúru skiptir þá nákvæmlega engu máli. Og þeir vísa á bug öllum tillögum sem hugsanlega gætu skert gróðann. Þetta er svona allsstaðar á landinu. Það sýnir álæðið sem geysað hefur hér í áratugi. Og bæjarstjórarnir fyrir norðan keppast nú við að skora á Alcoa að koma til sín. Enda guðsríkið líklega álfurstanna. Gott fyrir þá að vefja skammsýnum íslendingum um fingur sér. Hvort eð er búið að útiloka þá á flestum öðrum stöðum í heiminum. Hér er nóg af mönnum sem glaðir myndu virkja miguna úr ömmu sinni ef hægt væri að framleiða ál úr orkunni frá þeirri gömlu. Og raula stef úr gamalli vísu: Þegar ömmu verður mál þá búum við til ál. Fari þeir allir í fúlan pytt. Ég hef nokkrum sinnum gengið á Ingólfsfjall. Oftast upp Djúpadal þar sem aðalskemmdarverkin eru stunduð. Þegar upp er komið eru ca. 4-5 km inná Inghól. Þaðan er geysilegt útsýni. Fjallið er þar 552 m yfir sjávarmáli. Minnisstæðasta gangan þangað er sú síðasta, 27. júní 1998. Með skáldinu mínu og frænda okkar, systursyninum og skógfræðingnum Gunnari. Hann lést af slysförum 8 dögum síðar. Aldrei verður mér litið til fjallsins góða án þess að minnast þessa ljúfa vinar. Veðrið var einstakt, sól og heiðríkja, og útsýnið óhemjufagurt. Meðan við sátum og átum af nesti okkar sagði Gunnar skopsögur eins og honum var lagið. Einkanlega af norðmönnum. Og ískrandi hláturinn heyrist enn. Sagt er að tíminn lækni öll sár. Svo er þó alls ekki. Hann hjálpar okkur til að sætta okkur við orðinn hlut. Nú lifir minningin um stórbrotinn frænda og yndislegan vin. Og tíminn heldur áfram. Þungur niður hans dunar stöðugt. Og þegar við yfirgefum sviðið mun fjallið eina standa áfram. Ef gróðahyggjan verður ekki búin að klára það. Nú eldar af morgni. Er á leiðinni niðrí Selvog í morgunsárið. Raikonen liggur hér endilangur á borðinu og dormar. Það er ró yfir okkur báðum. Megi dagurinn færa ykkur gleði, ykkar einlægur Hösmagi.

Comments:
Er þá Ingólfsfjall undir stjórn Hvergerðinga?
 
Stærsti hluti fjallsins tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi þ.m.t. núverandi efnistökusvæði. Grímsnes- og Grafningshreppur eiga hluta, Árborg smábút og líklega Hveragerðingar einnig. Nýjustu fregnir herma að skemmdarverkaliðið ætli sér að lækka fjallsbrúnina um 80 metra.Hvenær skyldi sumt fólk uppgötva verðmætin í óspilltri náttúru? Það er gamla sagan að það eru ævinlega peningarnir sem streyma fyrirhafnarlaust í vasann sem er það eina sem það skilur.
 
Ósköp eiga sumir bágt. Verða að skælast á einhverjum eldgömlum tvöhundruðogeitthvaðhrossöflum. Æ,æ.
 
Og skemmdarverkaliðið ekur allt á japönskum 8 milljónkróna lélegum eftirlíkingum.
 
Já, það er hneyksli hvernig farið er með Ingólfsfjallið. Sýnir manni að fólki er ekkert heilagt.
 
Mér var heilagur sokkur einn en hann var brenndur. Þessi staðreynd sannar að fullyrðingin hér að framan er bæði rétt og röng. Sumum er nefnilega annt um sokkana sína þótt aðrir kasti þeim á bálið.
 
Ertu að tala um sokkinn sem ég kveikti í í Barcelona hér um árið?
 
Kátt er þegar kötturinn
karar á sér feldinn
en sárt er mér um sokkinn minn
ef settur er á eldinn.
 
Heyr fyrir þessu. Költið, hin eina og sanna siðmennig tilheyrir einungis Cherokee liðinu. Og það kastar alls ekki sokkum á bálið.
 
Sokka brenndi sá er gaf út
sérstætt rit með mér. Ó, því
er költið skárra er heimti á haf út hestaflaknúinn Cherokee.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online