Sunday, February 26, 2006

 

Dumbungur.

Dimmt yfir. Grillir í fjallið og hitastigið 1 gráða. Svo sem bærilegt meðan ekki snjóar. Þau gerast nú torráðin kommentin frá skáldinu. Kanski er þetta gáta sniðin fyrir aldraðan föður. Eða bara upphafið að þjóðlagi. Svona eins og í vísunni eftir þjóðskáldið þjóðlega.

Hundurinn galar, hrúturinn frýs,
hesturinn malar og vælir.
Samfylkinguna sauðurinn kýs
og seinheppni asninn kælir.

Kannski fleira verði ort um öll hin dýrin. Og dýrbítinn, þennan með refslegu augun. Vildi ekki verða á vegi hans á fáfarinni götu þegar tekið er að skyggja. Færi með veggjum og reyndi að troða mér inn á næstu krá. Eins og hin þjóðskáldin öll. Hafa löngum unað þar hag sínum bærilega, líkt og íslensku aríarnir í Edinborg sem drukku allar tegundir áfengis af bestu lyst.
Sum ykkar hafa spurnir af svokölluðum leiðandi spurningum. Mjög gott að nota þær þegar ekki fæst skýr niðurstaða strax. Eins og barnið sem sá glæp ásýndar. Yfirheyrandinn vildi vita hver hefði framið hann. Það var dimmt og barnið sá ekki glöggt til glæpamannsins. Þá var bara spurt hvor það hefði verið, lögmaðurinn eða presturinn. Sem betur fer fyrir mig var það prestskrattinn. Hann var auðvitað settur beint í gapastokkinn og er þar enn. Eins er það hér á Urtufossi. Umdeild tillaga um 16 hæða turnspírur við brúarsporðinn hefur verið í umræðunni. Og þar er ekki spurt hvort fólk vilji að þeir rísi eða ekki. Sporgöngumenn skýjaklúfanna spyrja einfaldlega hvort turnarnir eigi að vera 16 hæða eða ekki nema 15 hæða. Mjög snjallt. Allir vilja þessa stórfenglegu turna. Eiga ekki annara kosta völ. Ég hitti einn fyrrum allaballa í síðustu viku. Hann spurði hvað væri frétta úr pólitíkinni. Einn þessara nytsömu sakleysinga sem flykkst hafa í samfylkinguna. Hann er voða hrifinn af skýjakljúfum kratans frá Vestmannaeyjum. Þegar ég lýsti efasemdum mínum um turnana spurði hann hvort ég vildi heldur hafa þá á hliðinni. Sem sé mörg lágreist hús. Ég sagðist bara ekki sjá neina nauðsyn á að byggja íbúðarhúsnæði á þessum stað. Þetta er hvort eð er bara smáskiki. Svona mátulegt pláss fyrir nokkrar smáverslanir, krár, listvinahús, tré, blóm og fleira í þeim dúr. Það heyrist lítið af framboði vinstri grænna. Kanski erfið fæðing. Kannski býð ég mig bara fram sem óháður ( sem ég hef ætíð verið). Lýsi því yfir að ég vilji ekki sjá þessa turna. Fæ örugglega mörg atkvæði út á það. Yrði kannski bara bæjarstjóri og fengi voða fína skrifstofu og mikið kaup. Ekki veitir nú af eftir allar fjárfestingarnar. Og ég yrði góður bæjarstjóri. Grjótharður í horn að taka. Eins og stálið frá Krupp. Enginn geðlurða eins og Bastían sem lét glæpahyski vaða uppi. Stela vínarbrauðum, pylsum og svoleiðis. Ætla að láta staðar numið nú en skrifa harðorðan pistil þegar ég verð búinn að koma mér fyrir í nýja stólnum. Eða jafnvel fyrr. Með baráttukveðjum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online