Monday, August 04, 2008

 

Sá flottasti.

Stundum hef ég talað um grænu þrumuna sem flottasta vagninn í Selfossflotanum. Svo vita nú flestir hvað Hösmagi sjálfur er flottur. En það er laxinn sem ég veiddi í gær sem ég er að tala um. Hann var nákvæmlega 3 kg. að þyngd en einungis 62 cm. á lengd. Örugglega af gamla Sogslaxakyninu. Svona fiskar eru orðnir afar sjaldséðir í Ölfusá og því enn skemmtilegra að krækja í þá. Þetta var skínandi fagur hængur. Þykkur í meira lagi, hausinn rennilegur og styrtlan sver. Ég gaf nú veiðinni að mestu leyti frí á fyrri vaktinni. Áin enn eins og kakó á litinn. Örlítið skárri á efra svæðinu. Allt virtist líflaust og uppúr klukkan átta var ég farinn að hugleiða uppgjöf. En ég hef áður minnst á þolinmæði. Korter yfir átta renndi laxinn sér á ánamaðkinn. Það skemmtilega við það að ég varð ekkert var við tökuna. Óklárt á hjólinu og ég hafði rakið nokkra metra ofan af því. Ég rak upp siguröskur þegar slakinn hvarf og laxinn rauk af stað. Enn og aftur gerast skemmtilegir hlutir í Klettsvík. Eða Lögmannshlíð. Það var ánægður gamall veiðirefur sem hélt til síns heima klukkan 10. Rauðskott fagnaði fóstra sínum að venju. Þetta varð því góður sunnudagur og sumarafli undirritaðs náði 2ja stafa tölunni. Veiði aftur á laugardaginn, Veiðivötnin 12.-14. og síðasti laxveiðidagur í Ölfusá þann 17.
Það rigndi töluvert í nótt en nú hefur sólin rutt þokuloftinu burtu. Vona að Sölvi, Helga og vinir fái gott veiðiveður í dag. Héldu héðan á grænu þrumunni um eittleitið í gær. Sjálfur hlakka ég mjög til endurfunda við Vötnin mín fögru, fjöllin, Himbrimann og svo að sjálfsögðu stórurriðann. Það er líka alltaf gott að hitta veiðiverðina, hjónin Bryndísi og Rúnar. Þau eru örugglega vinamörg. Alltaf boðin og búin til aðstoðar og eru rétt fólk á réttum stað. Það er semsagt heilmikið af dásemdunum eftir þó tekið sé að skyggja á kvöldin. Við Kimi sendum fagnaðarkveðjur til vina okkar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Sá græni færi langt með að vera sá flottasti ef hann væri svartur.
Garðbæingar bíða einnig spenntir eftir vatnaferð, reikna fastlega með mokveiði.
 
Svartur? He he.Allt er vænt sem vel er grænt. Ég er að hugsa um að fara með kerru aftan í grænu þrumunni. Tóma inneftir en drekkhlaðna til baka. Svo verður flakað, saltað og reykt.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online