Friday, August 01, 2008

 

Ágúst.

Nýr mánuður byrjaður. Hitinn tæp 19 stig og áin enn ófögur á litinn. Skammturinn þessa daga er 1 lax. Ef það verður svo á sunnudaginn ætla ég að fá hann. Kannski reynist Sölvi Björn sannspár og veiðin glæðist þegar líður á vikuna. Við Kimi erum báðir innandyra sem stendur. Ég fór með Grand Cherokee í smurningu og olíuskipti í morgun. Græna þruman er því tilbúin fyrir skáldið og vini. Ég hugsa að þessi glæsilega sjálfrennireið rati orðið inneftir.
Það hefur verið skemmtilegt að sjá viðbrögð stóriðjusinna við úrskurði Þórunnar umhvefisráðherra um heildstætt mat umhverfisáhrifa fyrir norðan.Þingmenn íhaldsins eru æfir. Sveitarstjórinn í N-Þing. botnar ekkert í þessu. Frikki Sóf alveg í rusli og talar um vandamál. Ég las skrif ágætrar konu á moggablogginu sem sagði Landsvirkjun vera vandamál og stærsta vandamálið væri forstjórinn sjálfur. Ég get tekið undir þetta og nýyrðið um þessa stofnun. Illvirkjun. Það verður fróðlegt að fylgjast með hjaðningavígunum sem framundan eru. Kannski verður Þórunn látin fjúka. Fleygur í stjórnarsamstarfið segir Kristján Júlíusson. Það heyrist þó ekki stuna frá Sollu eða Geira. Þau sofa áfram í mjúku stólunum. Líklega vakna þau ekki fyrr en við hvellinn þegar stjórnin springur. Ef fram heldur sem horfir er stjórn þessa aumingja fólks búin að vera. Það hefur aldrei gerst áður í sögu þjóðarinnar að ríkisstjórn með stóran þingmeirihluta hafi afrekað minna á heilu ári. Kannski er ekki alveg ljóst hvað við fáum í staðinn. Ástandið getur þó ekki annað en batnað við andlát þessarar fádæma lélegu stjórnar. Hún verður ekki mörgum harmdauði. Nema ráðherranna sjálfra. SF hefur ekki staðið við eitt eða neitt. Velferðarmálin og umhverfismálin sanna það best. Af íhaldinu var aldrei neins að vænta. Vonandi munu áhrif þess dvína hratt í þessu þjóðfélagi. Flokksins, sem verndar hag tiltölulega fárra á kostnað margra. Auðmenn landsins eru með allt sitt á hreinu meðan þrengir að almenningi. Arðránið sem íhald og framsókn stóðu fyrir heldur áfram með aðsoð SF. Burt með ranglætið. Skerum upp og fjarlægjum meindýrin. Þá er von til að ná sáttum í pólitíkinni og gera góða hluti. Sumarkveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments:
En ekki líst mér á stjórn íhaldsins og VG - sem vænta má að verði næsta stjórn ef þessi springur, miðað við daður Ögmundar við Bjarna Ben í Kastljósinu um daginn. "Ég tek undir orð forsætisráðherra," sagði Ögmundur og allt í þeim dúr, um hvað forsætisráðherra væri flinkur. Þessi stjórn verður forhertasta afturhald t.d. hvað utanríkisstefnuna varðar, mun hyggla landsbyggðina meira á kostnað höfuðborgarbúa og varla bylta neinu í kvótamálum. Eina sem sú stjórn gæti tryggt væri kannski að aftra einkavæðingunni í heilbrigðis- og menntageiranum, ef VG fengi þá yfirhöfuð að ráða einhverju.

Hvað um það. Frábært að heyra að Græna þruman er klár í slaginn. Ég þakka fyrir mig. Bestu kveðjur, Sössi
 
Nokkuð fyrirsjáanlegt að ég sé sammála síðasta ræðumanni. Gleymum því heldur ekki að framsókn og VG vilja ekki sitja í stjórn saman.
Þetta er illskársta stjórnarformið eins og er, alla vega meðan að Framsókn er áfram sama hreppapólitíkusa-bitlinga- og landbúnaðarafturhaldið, fyrir utan stóriðjufanatík, meðan að VG halda áfram að vera ekki stjórntækir vegna þeirrar fáránlegu kröfu að við segum okkur úr EES, þrátt fyrir að EES sé lykillinn að velsæld Íslendinga og framförum á undanförnum árum og meðan að Frjálslyndir halda áfram bjánahætti, popúlisma og útlendingaandúð.

Vinstri stjórn væri frábær en VG og Framsókn vilja ekki vinna saman. Því er sjálfhætt í bili á þeim bænum. Best væri auðvitað ef bæði VG og Framsókn myndu kasta sínum steintröllum fyrir björg og nútímalegri og yngri forysta kæmi þar að völdum. Framsókn myndi verða sá Evrópusinnaði flokkur sem ungliðahreyfingin þar heimtar og VG myndi sömuleiðis hlýða á óskir um helmings kjósenda sinna um að hætta þessari evróskeptík alla tíð og hugleiða inngöngu í ESB og þar með upptöku Evru. Þá gæti orðið til flott vinstri stjórn, draumur okkar allra.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online