Wednesday, August 06, 2008

 

Strípihneigð?

Geir Haarde hefur talað. Það er allt í fínasta lagi hér. Bankarnir græða heilmikið. Engin ástæða til að standa sig í starfinu meðan það ástand varir. Flestir landsmenn sjá þó að þetta er ekkert nema della. Illa lyktandi kúadella. Geir er berstrípaður og sýnir að menntun er sumum til lítils. Hagfræðingurinn telur enga ástæðu til neinna aðgerða þó þúsundir fólks hafi misst atvinnuna og því fjölgi dag frá degi. Mörg fyrirtæki kominn á hausinn nú þegar og hrun blasir við hjá mörgum til viðbótar. Þetta er hrikalega slæm ríkisstjórn. Henni kemur hagur landsmanna lítið við. Solla spókar sig í vesturheimi. Það heyrist hvorki stuna né hósti frá SF. Til hvers var þetta fólk kosið á þing? Það væri hollt vinstri mönnum að hugleiða hvað þeir gerðu með því að kjósa SF í síðustu kosningum. Hin heilaga Jóhanna er nú, eftir meira en árs setu í ráðherrastóli, að átta sig á því að öryrkjar fá einungis einnþriðja af lagfæringunni sem þessi ráðherra hefur verið að stæra sig af. Rúm 8.ooo af tuttuguogfimmþúsundkallinum. Sjálf hirðir hún mismuninn. Þessi ráðherra er löngu útbrunninn og hefði átt að fá kistu frá vörubílstjórunum eins og hinir. Það er ekki einn einasti af ráðherrum þessarar stjórnar verðugur starfs síns. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi við fáráðana í þessari stjórn minnkað um 60%. Vond var nú síðasta stjórn en lengi getur vont versnað. Ég var eiginlega ákveðinn í að kjósa ekki í næstu kosningum. Ég hef skipt um skoðun og mun kjósa gegn núverandi stjórnarflokkum. Og vona að það verði fyrr en seinna, því ekkert er nauðsynlegra en að veita núverandi stjórn nábjargirnar. Stóri " vinstri" flokkurinn lyftir ekki hendi gegn óréttlætinu. Vonandi uppsker hann í samræmi við það í næstu kosningum. Ég hef oft lýst eðli hans hér í þessum pistlum og allt sem ég hef sagt um hann hefur reynst vera rétt. Völdin ein skipta hann öllu. Hugsjónir engar og loforðin látin lönd og leið. Það eru samt til góðir vinstri menn í flokknum. Ég vona að þeir krefjist uppgjörs við stefnuleysið. Veri þeir velkomnir í lið með okkur andstæðingum hinna ferðaglöðu og berstrípuðu ráðherra í þessari óþolandi ríkisstjórn. Fari hún öll til fjandans, því þar er hún vel geymd í góðum félagsskap.

Þokunni er að smálétta af fjallinu góða. Hellirigning í morgun. Kíkti eftir ormum í gærkvöldi og fatan þyngdist heilmikið. Veiðidagur í Ölfusá á laugardag og líka gott að eiga orm í Veiðivatnatúrinn í næstu viku. Frekar dræm urriðaveiði þar að undanförnu svo það er kominn tími á breytingar. Ég er alveg viss um góða ferð. Ég stóð í mokstri fljótlega eftir að ég sofnaði í nótt. Þessi draumaveiði er líka skemmtileg eins og raunveruleikinn. Kimi með trýnið út um gluggann. Morgungalsi í okkur báðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online