Monday, August 11, 2008

 

Veiðivötn.

Á morgun er 12. ágúst. Afmælisdagur móður minnar sælu. Nokkrum sinnum haldið á Vatnaslóðir þennan dag. Síðast í fyrra þegar ég sofnaði með stöngina í fanginu. Líka eftirminnileg ferð árið 2004 með Sölva mínum og norninni Misery. Þá var 26 gráðu hiti í forsælu á þessum dásamlegu slóðum sem eru í um 600 m hæð yfir sjávarmáli. Við skáldið fengum 33 urriða í Ónefndavatni. Það var í fyrsta skipti sem rækja var meðferðis sem beita. Mér verður ætið minnisstæður síðasti urriðinn sem ég veiddi um hádegisbil þann 13. Örlítil lufsa af rækju var eftir á króknum. Ég var að draga inn færið og sá lufsuna svona 6 metra frá mér. Ég sá urriðann koma á urrandi ferð og steypa sér á góðgætið. Hann nánast tók þessa örbeitu eins og flugu. Hann var svo fastur á króknum að mér tókst með herkjum að ná honum úr. Fiskurinn var nákvæmlega 3 og hálft kíló eða 7 pund. Slíkum fiski gleymir maður ekki. Ég keypti lúxusrækju í dag svo það verður ekkert slor á borð borið. Siggi Þráinn kemur með makríl, maðkur úr garði Immu, og svo verða flugur og spúnar einnig meðferðis. Hluti af farteskinu er nú þegar komið í tengdamömmuboxið á toppi grænu þrumunnar. Synir og afastrákar koma um hádegisbil og þá verður ekki langt í brottför. Gott fólk hér í blokkinni ætlar að líta til með Kimi á meðan fóstri verður af bæ. Það eru u.þ.b. 135 km inneftir og þar af eru 110 með bundnu slitlagi. Það er því í rauninni engin langferð framundan. Hestöfl eðalvagnsins jafnmörg og áður. Veðurspáin er ágæt, enn daginn styttir. Það er gangrimlahjólið sem ég hef svo oft minnst á hér.
Þokkalegt ról á laxveiðinni í Ölfusá. Í morgun voru komnir 270 á land. Nokkru færri stangir í ánni að undanförnu enda komið fram úr úthlutunardögum og leyfi nú seld á netinu. Þó má ætla að laxarnir verði á 4ða hundrað eftir sumarið. Ég var við dorg á laugardaginn og var einn á efra svæðinu. Hélt mig að mestu í Kettsvík en þar var aldrei þessu vant ekkert líf. Tókst svo að krækja í einn í Víkinni seinnipartinn. Fallegur hængur, 3,2 kg. Hann var alveg kakkaður af lús og verið á hraðferð upp ána.
Ég gekk því til náða nokkuð drjúgur með mig.
Við Kimi göngum nú snart til sængur. Hann hefur reyndað mókt í 3-4 tíma. Voða notalegt að liggja á ullarpeysu fóstra síns. Gerir heldur ekki háar kröfur. Éta og sofa eða einskonar Sovét. Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Megi línur ykkar strengjast.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online