Tuesday, October 30, 2007

 

Réttlætið.

Þó nauðungarsjónvarp allra landsmanna sé nú bara bölið eitt þá horfi ég nú stundum á það. Ég var að hlusta á frétt um að kóngurinn, emírinn, soldáninn eða andskotinn af Sádi Arabíu væri allt í einu kominn í heimsókn til Elísabetar. Með stóran flugflota, 30 eiginkonur, 25 börn, her lífvarða og óskaplega mörg barnabörn. Rosalega flott og herþotur hennar í oddaflugi til að fagna þessum góða gesti. Ég átti einu sinni eiginkonu og þrjú börn með henni. Leiðir skildu og það er bara allt í besta lagi, enda þekki ég þau öll enn og sambandið ágætt. En enga hef ég konuna í dag. Kemst samt af. Emírinn af Selfossi er vart eftirsóknarverður í samanburði við allar konur emírsins sem að sögn sjónvarpsins sanna og eina er er 82ja ára að aldri.Kannski verð ég búinn að breyta um trú og orðinn svo rosalega sexí þegar ég kemst á hans aldur að ég muni barna hverja þá kerlingu sem á vegi mínum verður.
En þetta er bara enn eitt dæmið um réttlætið. Ég er enn í þjóðkirkunni aðallega vegna þess að ég hef ekki haft nennu til að segja mig úr henni. Rétt bara si svona, ykkar Hösmagi.

Ef einhver hefur haldið að ég gæti skrifað eitt eða neitt á þennan vef án Kimis þá er það ekki rétt. Við erum hér báðir. Bestu kveðjur. ykkar Hösmagi.

Saturday, October 27, 2007

 

Fíkn.

Fíkn mannskepnunnar er alþekkt. Eiturlyf margskonar, brennivín, tóbak og þarframeftir götum. Kynlíf, matur, græðgi og jafnvel morðæði. Og við skulum ekki gleyma matnum. Ofát fellir fleira fólk á vesturlöndum en flest annað. Lífsstíllinn hefur breyst. Flestir borða óhollari mat en áður var. En það virðist ólíkt hvað höfðar til hvers og eins. Minn ágæti fyrrverandi mágur, Guðmundur B. sagði eitt sinn við mig. Þú ert bara ágætur náungi. Enn stærsti gallinn á þér er sá að þú ert ekki nógu mikill matmaður. Þetta var að sumu leyti rétt. Hef alla tíð verið fremur hófsamur á þessu sviði. Yfirleitt ekki séð ástæðu til að borða meira af góðum mat þegar ég er orðinn mettur. En það var alltaf ljúft að neyta matar með Gúnda. Glasið líka oft við höndina, þó oftast í hófi. Einhverntíma skrifaði ég pistil hér á blogginu sem hét Sól og ostur. Nú gæti hann heitið fyrsti vetrardagur með Óla gamla. Í fyrradag keypti ég mér 374 grömm af þessu fína stöffi. Nú er það að klárast og búið að loka búðinni. Nýir eigendur að þessari gömlu verslun og verðið hækkaði að sjálfsögðu. Einkavæðingin kostar okkur mikla peninga. Og það sem er dæmigert við mjólkurbúðina á Selfossi er sérstakt. Þar fæst ekki lengur nein mjólk .Allt á sama veg, græða meira og miklu meira,

Líklega eru nú margir af fáum sem lesa bloggið mitt orðnir pínu þreyttir á að Raikonen kúri í gamla stólnum. En það er nú samt svo. Og ég kann bara ágætlega við það Kveðjur frá okkur. Ykkar Hösmagi.


Eptirskriptum. Stundum komu komment frá eldri syninum. Eg nenni nú ekki að telja hvað er orðið langt síðan. Kommon Maggi, Begga og allir hinir. Svo er bústaður 55 m2 falur fyrir slikk. Lóðin undir kærleikskotið er enn í eigu gamle far.

Wednesday, October 24, 2007

 

Ilmurinn er indæll.....

og bragðið eftir því. Ég held að þetta sé gömul auglýsing fyrir ákveðna kaffitegund. Undirritaður hefur á undanförnum árum gert sér grein fyrir því að kaffi er ekki sama og kaffi. Lengst af hugsaði ég ekkert útí þessa hluti. Svo fór ég að prófa mig áfram. Komst upp á lagið með að drekka kaffi Diletto. Ágætt kaffi frá Johnson og Kaaber. Svo kom Maxwell House. Nokkuð gott. Næst kom að því að prófa nýja kaffið sem möndlað er suður á Romshvalanesi. Kaffið frá Kaffi-Tár. Byrjaði á Morgundögginni og fór svo í Kvöldroðann. En hann höfðaði ekki til mín. Ég neyðist reyndar til að drekka eitthvert bölvað hland í vinnunni. Merrild eða eitthvað í þá áttina. Kannski tekst mér að breyta því. Með undirróðri og sálfræðitrikkum.
Morgundöggin fæst a.m.k. í 2 verslunum hér á staðnum. Bónus og Nóatúni. Það hafa oft verið rök ákveðins hóps kaupmanna eð það megi ekki bera saman verð á vörum í Bónus og öðrum verlsunum vegna þess að vörurnar í Bónus séu aðallega rusl. Allt önnur vörumerki sem ekkert sé varið í. Þetta fær ekki staðist. Bestu dæmin er þekktar vörur eins og gosdrykkir, mjólk, rjómi og kaffi. Það er nákvæmlega sama kókið í flöskunum hjá Nóatúni og Bónus. Og sama innihaldið í kaffipökkunum með Morgundögginni. Ég kaupi 500 gr. af Morgundögg í Bónus á 445 kr. En ég kaupi ekki sömu 500 gr. í Nóatúni á 698 kr. Af hverju ætti ég hreinlega að láta ræna mig inní verslun um hábjartan dag. Verðmunurinn er 57% . Þetta er kannski bara einn hluti af öllum djöfulganginum í kringum þá Bónusfeðga. Fyrir mér er þetta einfalt. Enda er ég ekki að bera saman verð á Fíat og Jeep Grand Cherokee.

Uppstytta hér í augnablikinu. Ég vildi gjarnan að nánast stöðugri rigningu hér nú um stundir yrði beint til Kaliforníu. Við Kimi slakir og enn í sigurvímu eftir sunnudaginn. Hlakka til helgarinnar eins og svo oft áður. Hvíld og slökun. Allt á réttri leið eins og hjá íhaldinu forðum. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Sunday, October 21, 2007

 

Dúnmjúk ský.

Ég og kisi svífum nú hér um á dúnmjúkum skýjum. Við erum nú ekki á neinu. Það er bara fögnuðurinn einn yfir úrslitum formúlunnar sem er ástæðan. Hin geðþekki finni, Kimi Raikonen orðinn heimsmeistari. Þegar leikurinn stóð sem hæst og tvísýnt var um úrslitin hljóp kisi burt frá sjónvarpinu. Þegar allt var í höfn kom hann skælbrosandi inní stofu. Malaði hátt og lagðist í sófann og steinsofnaði. Ég ætla nú samt alls ekki að hlaupa til og kaupa mér Fíat. Kannski hefði ég heldur kosið að þessi ágæti nafni kattarins hefði unnið titilinn á alvöru vagni. En aðalatriðið er að minn maður sannaði það í dag að hann er besti ökuþórinn í þessari íþrótt nú um stundir. Var í nánast vonlausri stöðu en heilladísirnar voru með honum. Og það skiptir miklu máli. Ef þær standa með þér þarftu ekki að hafa miklar áhyggjur. Það hef ég margreynt sjálfur. Sumum finnst kappakstur vera ákaflega auðvirðileg íþrótt. Hún mengar og er hættuleg. En það er bara svo um margt annað sem mengar miklu meira og er enn hættulegra. Við erum bara svona. Þó við séum pollróleg líkar okkur vel við spennu. Þurfum á henni að halda. Nánast allir töldu það létt verk og löðurmannlegt fyrir Hamilton að verða heimsmeistari í dag. Það sem gerði gæfumuninn var að heilladísirnar voru honum mótdrægar. Ekki hans dagur. Ef til vill voru dísirnar ekki ánægðar með framkomu hans í gær. Þetta er ungur maður sem á framtíðina fyrir sér á bensíngjöfinni. Hann hefur örugglega lært heil reiðinnar ósköp í dag. Ég óska honum góðs gengis á öllum sviðum í framtíðinni. Og öllum hinum líka. Samt held ég að Raikonen vinni aftur á næsta ári. Þetta hefur verið mikill ánægjudagur hjá okkur kisa mínum. Og hver haldiði að hafi hringt í mig um leið og keppninni var lokið til að óska okkur Kimi til hamingju? Auðvitað kona á áttræðisaldri sem hefur ekki ekið bíl í áratugi. Önnur systra minna ágætra, Nína Sæunn.

Helginni að ljúka og brauðstrit framundan á morgun. Það er bara dásamlegt. Og það er fyrst og fremst dásamlegt vegna þess að það er ekki sjálfgefið. Því miður eru svo margir sem kvíða fyrir morgundeginum. Ég veit hvað það er og er bara þakklátur. Við nafni nýja meistarans sendum kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 20, 2007

 

Tíðindi.

Ég sá það á moggavefnum hér áðan að Birna Þórðardóttir hefði sagt skilið við VG. Sagt sig úr flokknum. Það kemur mér þó alls ekki á óvart. Birna hefur verið einörð baráttukona fyrir mannréttindum og jöfnuði í áratugi. Mér dettur líka í hug herseta kananna hér, Víetnamstríðið og glæpaverkin í Írak.Líklega eigum við Birna margt sameiginlegt þó ég vilji nú síður hæla sjálfum mér mikið í alvöru. Við erum örugglega fleiri á vinstri kantinum sem höfum efasemdir um það sem VG er að gera í höfuðborginni. Þegar fulltrúi spillta flokksins komst ekki lengra með íhaldið brosti hann bara til Svandísar og hún lét til leiðast. Magga var að sjálfsögðu til í hvað sem var. Enda að sumra mati umkomulaus og umboðslaus flækingur. Kosinn sem varamaður fyrir flokk sem hún hefur sagt skilið við fyrir löngu og er nú varaformaður í enn einum flokknum. Kannski vorkunn þegar vondir menn voru búnir að stela flokknum frá pabba gamla. Er Steingrímur formaður ánægður með þessa þróun? Hann hefur löngum ekki haft mikla ást á framsóknarflokknum. Ekki beinlínis verið að skafa neitt utan af hlutunum þegar hann hefur beint orðum til fylgismanna þessa gamla steingerða flokks.Hann er kannski sama marki brenndur eins og svo margt fólk sem enn lafir í þessum flokki. Brennir af hverju vítinu á fætur öðru. Mér finnst það hroðalegur afleikur í þessari refskák sem pólitíkin er, að nota ekki tækifærið til að losna við Björn Inga. Það er þó dagljóst að hann hefur í raun engin pólitísk markmið önnur en kjötkatlastefnuna. Fyrir sig og vini sína. Nýi borgarstjórinn brosir breitt. Þar er líka það sama uppá tengingnum og í ríkisstjórninni. Völdin ein nægja SF prýðisvel. Ég ætla ekki að tíunda neitt af því sem SF hefur svikið af kosningaloforðum sínum. Þá yrði þessi pistill allt of langur. Ég ætla að senda Birnu Þórðardóttur mínar bestu kveðjur. Sannar baráttukveðjur. Kannski kemur hún bara í Þrettándaflokkinn þegar hann verður stofnaður? Það er gott að enn skuli vera til fólk á Íslandi sem ekki er tilbúið að kasta sannfæringu sinni og lífsskoðun beint á ruslahaugana fyrir nokkrar baunir á disk.

Nú ólga norðlensk bjúgu og rauðar íslenskar í maga skrifara. Hösmagamaga.Það er hinn notalegasti ólgusjór . Raikonen kemur hér stökkvandi innum gluggann. Hann veit nokk hvað tímanum líður. Stutt í tímatökurnar í formúlunni. Við fylgjumst vonandi með nafna hans stinga keppinautana af. Kveðjur frá okkur rauðliðum, ykkar Hösmagi.

Wednesday, October 17, 2007

 

Flokkslaus maður.

Ég sagði um daginn að ég væri orðinn flokkslaus aumingi. Ég hef þó enn áhuga á stjórnmálum og lífsskoðanir mínar eru óbreyttar. Ég hef ekki mikla trú á hinum nýja meirihluta í höfuðborginni. Hann er þó að því leyti skárri en sá fyrri að hann hefur meirihluta atkvæða á bak við sig. En ekkert má út af bera. Ekki vildi ég stýra meirihluta sem annarsvegar veltur á Birni Inga og hins vegar á Margréti Sverrisdóttur. Þarna var sögulegt og gott tækifæri á að losna við Framsókn úr borgarstjórninni. Ef VG hefði myndað meirihluta með íhaldinu hefðu hlutföllin orðið 9 gegn 6. Þá hefði ekki dugað fyrir einn borgarfulltrúa íhaldsins að vera með múður og hótanir. T.d. mann eins og Gísla Martröð. Það sem langbest hefði verið fyrir Reykvíkinga var að blásið hefði verið til nýrra kosninga. Þar sem íhaldið er með allt niður um sig, Framsókn á svipuðu 5-6% róli og frjálslyndir margklofnir og alveg á rassgatinu, hefðu SF og VG örugglega náð hreinum meirihluta í borginni. Það hefði verið góð leið fyrir þessa flokka til að sanna að þeir gætu unnið saman. Tekið ærlega til og ýtt mestu spillingaröflunum til hliðar. Þá hefðu þeir líka endanlega losnað við Alfreð Þorsteinsson. Og spilltasta stjórnmálaafl landsins, framsóknarflokkurinn, hefði fengið hina endanlegu hvíld. Sá flokkur er fyrir löngu orðin tímaskekkja í stjórnmálum á Íslandi. Ekkert sannar það betur en menn á borð við Finn Ingólfsson , Alfreð Þorsteinsson og Björn Inga. Og ég gæti nefnt marga í viðbót. Fólk hefur alltaf verið fljótt að gleyma þegar pólitík er annarsvegar. Ef þessi nýi meirihluti lafir út kjörtímabilið fær íhaldið góðan tíma til að ná vopnum sínum á ný. Það er nú í algjörri forystukreppu í höfuðborginni. Klúðrið undanfarnar vikur sannar það betur en nokkuð annað. Tími VV er að renna út. Kannski tók hann nú töluverðan þátt í að grafa sína eigin gröf sjálfur. Varla heldur fólk að Martröðin muni nokkkurntíma verða höfuð íhaldsins í borginni. Það væri að vísu mjög gott fyrir andstæðinga flokksins. Myndi tryggja áhrifaleysi hans á stjórn borgarinnar í nánustu framtíð. Nóg um það að sinni.
Svipað ástand hér heimafyrir. Við Kimi vökum og njótum samverunnar. Kuldaskítur gærdagsins horfinn og það mun verða hlýtt og vætusamt næstu daga. Fyrsti vetrardagur þann 27. og engin merki um snjó í kortunum á bráðanæstunni. Það er ljúft. Ég verð í hlutverki forstjórans í vinnu fram í miðja næstu viku. Þröstur þarf að yfirgefa skerið í nokkra daga. Ég er nú reyndar ekki kominn með ístru enn. Enda sækist ég nú ekki eftir henni. Vigtin er þó á uppleið aftur. Fer í eftirlit á Lsp. þann 31. Allt á réttri leið og mér finnst byrinn í seglin aukast dag frá degi. Hlakka til dagsins og við Kimi rauðskott sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Monday, October 15, 2007

 

Hugsjónir eða spilling ?

Ég hef verið að velta því fyrir mér eftir atburði síðustu daga í pólitíkinni og reyndar frá síðustu kosningum hvar við erum eiginlega á vegi stödd í stjórnmálum. Upphafsmenn stjórnmálaflokkanna voru flestir hugsjónamenn sem börðust fyrir þeim einum. Nú er öldin önnur. Það virðist vera orðin undantekning með fólkið sem nú er í sveitarstjórnum og á þingi sé annað en pólitískir potarar sem hugsa um fátt annað en að hagnast sjálfir á veru sinni þar. Svo þegar þetta lið nennir ekki vafstrinu lengur, eða er búið að stela nógu miklu, vill það þægilegt djobb hjá ríkinu. Starfslokasamninga, há eftirlaun o.s.frv. Þarna er enginn stjórmálaflokkur undanskilinn. Að vísu meira áberandi í sumum en öðrum. Og nú þykir sjálfsagt að forsetinn sé á þönum í öllum heimsálfum til að greiða fyrir útrásinni. Og fararskjótar hans eru einkaþotur auðmannanna sem aldrei munu fá nóg. Þeim var afhentur allur fiskurinn í sjónum. Þeir fengu bankana fyrir smotterí. Símann líka.Þeir eru nú þegar komnir með tangarhald á hluta af orkulindunum. Og munu ekki unna sér hvíldar fyrr en þeir hafa náð yfirráðum yfir þeim öllum. Græðgin hefur engin takmörk. Hún virðist geta vaxið endalaust. Auðlindir okkar, allt vatnið, fiskurinn í sjónum, hugvitið og mannauðurinn gætu dugað okkur vel til þess að við öll værum fær um að hafa það þrælgott. En þegar mikið af öllum þessum auði er á fárra manna höndum mun það ekki verða þannig. Allar umönnunarstéttir landsins eru á smánarlaunum. Elli og örorkulífeyrir ekki beinlínis til að hrópa húrra fyrir. Svo eru orðnar til aðrar stéttir sem þurfa þyrlupalla við sumarhallirnar. Einkaþotu til að skreppa í leikhús í London. Fjármagnaðar m.a. með okurvöxtunum sem almúginn verður að greiða fyrir að búa í mannsæmandi húsnæði. Enda fleiri íbúðir seldar nauðungarsölu nú en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Hösmagi er ekki ánægður með þessa stöðu. Og því miður hefur hann heldur engan stjórnmálaflokk til að styðja lengur. Hann vonar samt sem áður að það geti hugsanlega orðið aftur áður en hann yfirgefur táradalinn. Það þarf að ráðast gegn spillingunni. Sóuninni og auðmannadekrinu. Hætta að afgreiða fólk sem gagnrýnir núverandi þróun og ástand með því að það sé bara öfundsjúkt úrtölulið. Kannski leggst okkur eitthvað til.

Nú andar af norðri og loks að verða bjart. Vinnudagur framundan og við Raikonen vel útsofnir.Kaffið uppdrukkið og hafragrauturinn bíður til hádegis. Róleg helgi liðin og batinn er á réttri leið. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Saturday, October 13, 2007

 

Bruðl.

Fólk talar oft um að þetta eða hitt sé ógurlegt bruðl. Einkanúmerakerfið er þar oft tekið sem dæmi um hroðalegt bruðl. Mér fannst afskaplega skemmtilegt að heyra um nýlegt einkanúmer. Það er einfaldlega BRUÐL. Sýnir að sá sem fékk sér það er ekki gjörsneyddur húmor. Undirritaður er líklega hroðalegur bruðlari. Eða bruðla ef ég væri af hinu kyninu. Ákaflega stoltur af einkanúmeri grænu þrumunnar, X-1313. Ég held að ég hafi fæðst með dálæti á tölunni 13. Og hef alla tíð haft gaman af tölum. Tel nánast allt. Hross í haga, ljósastaura, gæsir í oddaflugi, laxa og nefndu það bara. Ég þekki mann sem kaupir bjór fyrir 40.000 á mánuði. Telur það vera hluta af lífsgæðum sínum. Það mætti svosem kalla bruðl. Mér kemur það nákvæmlega ekkert við. Ég eyði talverðum peningum í veiðileyfi og hverskonar græjur tengdum veiðidellunni. Fyrir mér er það ekki bruðl. Það er hluti af mínum lífsgæðum eins og græna þruman með 330 hestöflunum. Alveg eins og nýja einkanúmerið á gamla Lancernum mínum. X-13. Auðvitað finnst mér þessi einkanúmer vera þau flottustu á landinu. Og hvert er svo bruðlið við þetta ógurlega bruðl. Ef við segjum að ég noti númerin bara í 10 ár er kostnaðurinn við þau bæði 517 kr. á mánuði. Það nær ekki verði eins pakka af sígarettum. Ef þú færir þessi númer milli bíla kostar það 500 kr. Tæplega bjór á kránni. Við skulum hætta að hneykslast á því hvað náungar okkar þau Bruðla og Bruðli gera. Ég gæti haldið áfram. Golfið, skíðin, fjallaklifrið og svo framvegins. Þetta er hluti af lífsgæðum fólksins sem stundar þetta sport. Við skulum heldur fordæma bruðl á borð við að kaupa gamlan ryðkláf fyrir Grímseyjarferju. Kostnaður allur farinn úr böndum og hinir vitru ráðherrar reyna svo að hengja bakara fyrir smið. Dæmin úr opinbera geiranum eru mýmörg. Og mér finnst það t.d. hroðalegt bruðl að eyða milljarði til svo fáfengilegs hlutar að komast í öryggisráð SÞ á meðan þarf að grípa til fjársöfnunar til þess að kaupa klippibúnað fyrir slökkvilið norður í landi. Búnað, sem skipt getur sköpum um líf eða dauða.

Þetta var nú laugardagshugleiðing Hösmaga, sem vaknaði hressari í morgun en að undanförnu. Enda fór hann í sauðaeftirlit um sjöleytið. Veður ágætt þó ein og ein skúr láti á sér kræla. Tvö rauðgul eyru sjást héðan upp úr baðvaskinum. Ég og eyrun sendum ykkur kveðjur í allar áttir, Amsterdam, Berlín, Chile, Breiðholt, Garðabær og út í hið óendanlega. Ykkar Hösmagi.

Eftirskrift. Skemmtileg tilviljun að uppgötva það að þetta var 400. pistill Hösmaga frá því í Edinborg forðum. Og dagurinn. Að sjálfsögðu sá 13 þessa mánaðar. Sami.

Thursday, October 11, 2007

 

Tík.

Skondin tík, pólitíkin. Mikið fjaðrafok í höfuðstaðnum í gær. Fulltrúi þess ógeðfelldasta í framsóknarflokknum áfram við stjórnvölinn með nýjum meðreiðarsveinum. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Ég trega það svo sem ekkert þó íhaldið sé í sárum yfir framvindunni. Einkum og sérílagi óska ég Reykvíkingum til hamingju með að losna við stóra gáfnaljósið Gísla Martein úr meirihlutanum. Lúsernum úr síðasta prófkjöri sjálfstæðisflokksins sem undanfarna daga sá tækifæri til að klekkja á sigurvegaranum úr sama prófkjöri. Ef fólk ætlar sér að láta fráfarandi borgarstjóra einan bera ábyrgðina á hvernig fór er það á villigötum. Björn Ingi verður áfram við katlana. Ær og kýr framsóknar munu áfram svífa yfir vötnunum í höfuðstaðnum. Nýi borgarstjórinn brosir. Og Magga Sverris brosir. Sá Svandísi ekki brosa í gær. Enda komin í einkennilega stöðu. Eru það kannski álög á fulltrúum VG að gera tóma vitleysu í tíma og ótíma? Svona eins og forsetinn mikli hér. Það skiptir litlu fyrir undirritaðan lengur, enda flokkslaus aumingi. Framsókn á engan þingmann í Reykjavík. En hún á yfirmatsveininn í eldhúsi borgarstjórnar, sem áfram mun hræra þar í pottum sínum. Kannski gerðist bara ekkert markvert í Reykjavík í gær. Það kemur í ljós síðar.

Síðasti vinnudagur vikunnar hjá undirrituðum í dag. Ég hef nú eiginlega ekki gengið á öllum sílynderunum þessa viku. Það verður annasamur dagur á Bakka í dag. M.a. 3 kaupsamningar. Ég hlakka til helgarinnar og ætla að hvíla mig og safna orku. Nýju þreki til lífsbaráttunnar. Hér hefur nú lægt og stytt upp. Kimi úti að viðra sig eftir storm næturinnar. Við sendum bestu kveðjur til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Monday, October 08, 2007

 

Aftur til starfa.

Hösmagi dró sig aftur á vinnustað í morgun. Eftir hlé frá19. september. Kannski bara vonum fyrr, en dagurinn var ágætur. Gott að máta stólinn sinn að nýju eftir nokkra fjarveru. Það verður þó að viðurkennast að undirritaður varð ósköp feginn að komast heim til sín aftur rétt fyrir 5. Stanslaus þreytuverkur sem getur stafað af því að hafa aðeins farið fram úr sjálfum sér. En lífsgleðin er hin sama og áður. Það er mikilvægast af öllu. Vona að morgundagurinn verði enn betri. Bestu kveðjur að sinni. Raikonen kúrir á gamla stólnum og við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online