Sunday, October 21, 2007

 

Dúnmjúk ský.

Ég og kisi svífum nú hér um á dúnmjúkum skýjum. Við erum nú ekki á neinu. Það er bara fögnuðurinn einn yfir úrslitum formúlunnar sem er ástæðan. Hin geðþekki finni, Kimi Raikonen orðinn heimsmeistari. Þegar leikurinn stóð sem hæst og tvísýnt var um úrslitin hljóp kisi burt frá sjónvarpinu. Þegar allt var í höfn kom hann skælbrosandi inní stofu. Malaði hátt og lagðist í sófann og steinsofnaði. Ég ætla nú samt alls ekki að hlaupa til og kaupa mér Fíat. Kannski hefði ég heldur kosið að þessi ágæti nafni kattarins hefði unnið titilinn á alvöru vagni. En aðalatriðið er að minn maður sannaði það í dag að hann er besti ökuþórinn í þessari íþrótt nú um stundir. Var í nánast vonlausri stöðu en heilladísirnar voru með honum. Og það skiptir miklu máli. Ef þær standa með þér þarftu ekki að hafa miklar áhyggjur. Það hef ég margreynt sjálfur. Sumum finnst kappakstur vera ákaflega auðvirðileg íþrótt. Hún mengar og er hættuleg. En það er bara svo um margt annað sem mengar miklu meira og er enn hættulegra. Við erum bara svona. Þó við séum pollróleg líkar okkur vel við spennu. Þurfum á henni að halda. Nánast allir töldu það létt verk og löðurmannlegt fyrir Hamilton að verða heimsmeistari í dag. Það sem gerði gæfumuninn var að heilladísirnar voru honum mótdrægar. Ekki hans dagur. Ef til vill voru dísirnar ekki ánægðar með framkomu hans í gær. Þetta er ungur maður sem á framtíðina fyrir sér á bensíngjöfinni. Hann hefur örugglega lært heil reiðinnar ósköp í dag. Ég óska honum góðs gengis á öllum sviðum í framtíðinni. Og öllum hinum líka. Samt held ég að Raikonen vinni aftur á næsta ári. Þetta hefur verið mikill ánægjudagur hjá okkur kisa mínum. Og hver haldiði að hafi hringt í mig um leið og keppninni var lokið til að óska okkur Kimi til hamingju? Auðvitað kona á áttræðisaldri sem hefur ekki ekið bíl í áratugi. Önnur systra minna ágætra, Nína Sæunn.

Helginni að ljúka og brauðstrit framundan á morgun. Það er bara dásamlegt. Og það er fyrst og fremst dásamlegt vegna þess að það er ekki sjálfgefið. Því miður eru svo margir sem kvíða fyrir morgundeginum. Ég veit hvað það er og er bara þakklátur. Við nafni nýja meistarans sendum kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Til hamingju með Finnann þinn í þessari íþrótt sem mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig fólk getur haft gaman af.
En það er nú einmitt að sem er svo skemmtilegt við lífið, hversu misjöfn við erum.
Kveðjur frá heimsenda.
 
Takk fyrir þetta.Allt satt og rétt. Mér er t.d. fyrirmunað að skilja aðdáun sumra á knattspyrnuliði KR. Einn fær klígju ef sviðasulta er nefnd en annar hakkar hana í sig af mikilli áfergju. Bestu kveðjur af vindskerinu suður á heimsenda.
 
Sviðasulta er góð. Þar erum við til dæmis í sama liðinu. Sama með bjúgun sem þú nefndir í færslunni þinni. Þá fékk ég líka vatn í munninn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online