Wednesday, March 15, 2006

 

Söknuður.

Ósköp er nú ljúft að sjá að einhver skuli muna eftir manni. Það er nú óvenjulega langt síðan ég hef bloggað. Bjóst nú varla við að nokkur tæki eftir því. Annir á vinnustað og heimafyrir. Skattavertíð og fleira. Gengur svo sem allt nokkuð vel og hagræðið af netframtalinu er mjög mikið. Engin vélritun lengur og engin hætta á að pósturinn týni gögnunum. Í gúrkutíðinni gerðist það svo allt í einu í gær að allt Baugsgengið var hvítþvegið af meintum glæpaverkum og kanarnir á heimleið. Geir Haarde hálfgrátandi en Dóri bar sig bara nokkuð vel. Kannski ekki alls varnað þrátt fyrir allt. Hið augljósa hefur komið fram. Kanarnir hafa aldrei verið hér okkar vegna. Nú þjónar það ekki tilgangi þeirra sjálfra að vera hér lengur. Það er fagnaðarefni að ný kynslóð íslendinga skuli fá að alast upp í herlausu landi. En mengun hugarfarsins mun verða til staðar áfram. Skriðdýrseðli sumra breytist ekkert. Fólksins sem fylgist einungis með CNN. Þar er allt heilagur sannleikur en flest lygi sem frá öðrum kemur.
Enn eitt vorið komið. Sjö gráður á Celsíus og þungbúið. Það er þó bara miður mars ennþá. En fiðringurinn gerir alltaf vart við sig í svona veðri. Aðalfundur stangveiðfélagsins er annað kvöld. Ef skáldið sér þennan pistil þá tilkynnist hér með að hinn margrómaði 3jastangadagur í Ölfusá verður hinn 15. júlí. Tilhlökkunarefni eins og allir hinir dásamlegu komandi veiðidagar. Og hinir dagarnir einnig. Hinn lífsglaði Hösmagi horfir björtum augum til sumarsins. Hefur rýmra frí en áður. Þó brauðstritið sé nauðsynlegt verður afslöppun líka að vera með. Veiðin, útiveran og ekki síst gott samneyti við aðra. Þó árin færist yfir Hösmaga jafnt sem aðra þá nýtur hann lífsins sem aldrei fyrr. Góð heilsa og hið einstaklega góða jafnvægi hugans spila þar stærstu rulluna. Þarf sannarlega ekki að kvarta yfir tilverunni. Við Raikonen snemma á rólinu sem fyrr. Pési vinur hans sníkjandi eitthvað í sig. Það er með ólikindum hvað sá köttur getur í sig látið. Og Raikonen situr á sínu rassgati og glápir í forundran á matinn hverfa af diskinum. Hann er líka vel upp alinn og dannaður. Þetta er bara líflegt samfélag hér í Ástjörn. Og ekkert skyggir á vináttu okkar Raikonens. Miklir vinir og líklega sálufélagar að auki. Vildi helst geta tekið hann með í veiðiferðir. En líklega verður hann nú heimavið. Verð að ná samningum við bróður minn góðan um eftirlit hér í fjarveru minni. Honum er nú sem betur fer ekki illa við ketti. Og svona í lokin skal það segjast að Green Highlander verður betri og betri með hverjum deginum. Eins og gömlu vínin. Nú í vikunni náði hann merkisáfanga. Hafði þá lagt að baki eittþúsundþrjúhurndruðogþrettán kílómetra. 1313. Tvöföld heppni. Lifið sæl og hamingjusöm krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þetta blogg hlýtur að fá gullverðlaun í sögu þinna um það bil hundrað blogga. Til hamingju! sbs
 
...og nú er ég aftur farinn að sakna færslu. Nógu mikil leiðindi boðuðu nú skattframtöl fyrir áður en þau stálu líka tímabundið frá manni besta bloggara Suðurlandskjördæmis.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online