Tuesday, March 28, 2006

 

Jafnrétti?

Það þykir meiri jöfnuður en annar að hafa sem nákvæmasta kynjaskiptingu á framboðslistum í öllum kosningum. Kynferðið er ofar manngildinu. Ef kona er í fyrsta sæti á að vera karl í því næsta. Og omvent. Heilinn í fólki skiptir hér að sjálfsögðu engu máli. Það eru tippið eða pjallan sem ráða ferðinni. Ég hef nú aldrei skilið þetta. Varla hugsar fólk nú með þessum ágætu líffærum. Listi Vinstri grænna í komandi bæjarstjórnarkosningum hér í Árborg leit dagsins ljós í fyrradag. Og þar er nú lítið jafnrétti. Tvö tippi í efstu sætunum. Pjöllur fá bara 3ja og 4ða sætið.Hvernig dettur þessum holdgerfingjum jafnréttisins annað eins í hug? Ég bara júst froga.
Vonandi eiga þó margir eftir að kjósa þennan framboðslista. Held að það væri mjög gott fyrir sveitarfélagið að þessi flokkur fengi fulltrúa í bæjarstjórninni. T.d. til að halda uppi andófi gegn allri skemmdarstarfsemi í umhverfismálum. Sumir halda því fram að okkur, sem nú erum á síðari kafla lífshlaupsins, komi framtíðin ekkert við. Þessvegna séum við ekki marktækir þegar við mótmælum turnspírum við brúarsporðinn og hækkun á hótelbyggingunni. Þessari ljótustu byggingu norðan Alpafjalla. Auðvitað er þetta firra. Ég ætla að halda áfram að vera á móti vondum hlutum. Kjósa þá sem ég treysti best til góðra verka. Og algjörlega án tillits til hvort þá prýðir tippi eða pjalla. Fyrir mér er þetta nú ekki flóknara mál en þetta.
Hitinn hér er farinn að halda sig ofan frostmarks allan sólarhringinn. En þetta er orðinn langvinnasta norðannátt sem elstu menn muna. Fátt er leiðinlegra en eilífur stormbeljandi. Treysti á góðan apríl. Enda eins og áður segir 14 frídagar. Skrepp ef til vill norður í land um páskana. Á hestbak. Ansi mörg ár síðan ég hef setið á svoleiðis dýri. Það hefur haugað niður snjó fyrir norðan en við hér syðra höfum sloppið. Hann hverfur þó fljótt ef hlýnar. Vona það besta og hlakka mjög til vorsins sem jafnan fyrr.
Það er mikill merkisdagur á morgun. 30. mars. Lofa öðru bloggi um hann bráðum. Hösmagi horfir til fjallsins góða út um kontorgluggann. Orðið albjart og Raikonen lætur sig hafa það útí garranum. Brauðstrit dagsins framundan. Ágætt. Kveð allt gott fólk að sinni, ykkar Hösmagi, hugsandi um jafnrétti og sköpulag mannkindarinnar.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online