Wednesday, March 29, 2006

 

30. mars.

Góður dagur runninn upp. Og reyndar slæmur líka. 57 ár liðin frá því " lýðræðisflokkarnir" 3 sviku þjóðina inní Nató. Og nú þegar herinn er á förum er búið að setja á stofn áfallahjálparsveitir á Suðurnesjum. Nóg að gera hjá sálfræðingum að hugga starfsmenn varnarliðsins. Ekki græt ég brottför kananna héðan.
Í fjölskyldunni er tvöfalt afmæli. Helga Soffía 33ja. Og yfirkötturinn í Ástjörn 7 er eins árs í dag. Á þriðjudaginn var pantaði ég 12 manna afmælistertu. Marsipanstríðsterta frá Guðna bakara. Ætla að sækja tertuna kl. 3 og gefa samstarfsfólki mínu á Bakka að smakka. Ét svo bara afganginn sjálfur. Raikonen fær svo rækjur í kvöldmatinn. Kannski hefur hann líka lyst á tertunni. Hann situr nú hér í glugganum og horfir heimspekilega út um gluggann. Enda gluggaveður enn. Vindhraðinn fór í 19 metra hér í gær. En það mun lægja og léttast brún.
Að vonum deila menn enn hart um inngönguna í Nató. Íhaldið kallaði til vaska sveit lýðræðisvina til að verja alþingishúsið fyrir óðum kommúnistaskríl. Lögreglan greip til gasárása á glæpalýðinn. Sem fékk makleg málagjöld. Biksvart mannorð og var bannað að kjósa um langa hríð. Hvað hafa líka kommúnistar með atkvæðisrétt að gera. Auðvitað ekki neitt. Menn eins og Jón Múli sem var trúr skoðunum sínum allt fram í andlátið. Blessuð sé minning hans. Þjóðin væri verulega fátækari ef hann hefði aldrei veið til. Það er löngu viðurkennd staðreynd að verulegur meirihluti þjóðarinnar var á móti Nató aðildinni 1949. Það breyttist síðar þegar hernám hugarfarsins hafði náð tökum á þjóðinni. Liðinu sem nú þarf áfallahjálp og sálfræðiaðstoð. Við skulum bara gleðjast yfir að fá loks að búa í herlausu landi. Og við fögnum afmæli Helgu og Raikonens. Verst að Helga fær ekkert af tertunni fínu. Við kisi sendum henni okkar bestu afmæliskveðjur og biðjum að heilsa skáldinu. Hún fær bara koníak þegar hún kemur í heimsókn til okkar næst. Kominn albjartur dagur og litla afmælisbarnið steinsofnað í gluggakistunni. Og það er enn sama róin yfir okkur báðum. Sæki veiðileyfin í kvöld og þá magnast tilhlökkunin til komandi sumars. Bestu óskir til ykkar allra, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online