Friday, March 24, 2006

 

Getraun.

Nú er hann enn af norðan, næðir kuldaél. Ekkert lát á vindgnauðinu. Við Raikonen þó báðir búnir að viðra okkur. Ég er sennilega eini bloggarinn hér á suðurlandi sem bloggar á blogspot.com. Og því örugglega langbestur. Nú heitir þetta reyndar Suðurkjördæmi eftir að við fengum hluta af Romshvalanesi með okkur. Hjálmar Árnason og fleiri fína drætti. Hálfgert vandræðakjördæmi því hér er allt morandi í íhaldi, framsókn og samfylkingarliði. Stendur vonadi til bóta.
Og getraunin. Hvað haldiði að Fiskihrellir ætli að gera 25. júní? Og 27. júní? 1., 6., 7., 8., 11., 15., 18., 19., 20., 25., 27., 28., og 29. júlí? 5., 12., 19., og 26. ágúst? Og 2. september. Veit að þetta er erfið spurning. Gott fyrir heilasellurnar að fá að reyna svolítið á sig. Aldrei að vita nema réttur giskari fái verðlaun. Í gær lækkuðu íslensku bankarnir í verði um tugi milljarða króna. Búið að segja upp lánum þeirra vestanhafs. Verða að fjármagna sig aftur með nýjum lántökum og dýrari. Þetta borgum við, viðskiptavinirnir hér heima á ísaköldu landi. Og Dóri hefur engar áhyggjur af þessu. Hugsar líklega eins og Lúlli forðum: Það lafir meðan ég lifi. Segir eins og þingmaðurinn í gamla daga: Hvað varðar mig um þjóðarhag? Bankarnir munu örugglega fyrst og fremst huga að eigin skinni. Eins og jafnan áður. Það er ekki bætandi á okrið sem nú tíðkast. En það verður gert. Almenningur borgar. Á ekki annara kosta völ. Bankarnir leggja mikið kapp á að koma Íbúðalánasjóði fyrir ætternisstapa. Einu stofnuninni í landinu sem ekki fer í manngreinarálit þegar lán til íbúðakaupa eru annarsvegar. Hvað á ríkið líka að vera að " vasast í því" sem einkaframtakið getur leyst af hendi? Mikið óskaplega verður ljúft að losna við þessa ríkisstjórn þegar þar að kemur. Aldrei hefur orðið stærra bil á milli ríkra og fátækra manna í Íslandi en nú er orðið. Af hverju eiga þrælarnir að greiða 38% skatt þegar þeir ríku greiða að stórum hluta bara 10%? Þetta er hið sanna réttlæti íhalds og framsóknar. Andskotinn eigi hvorttveggja.
Enn að blása á skattarykið. Ætla samt að eiga rólega og notalega helgi hér heimavið. Sleppi Raikonen lausum að vild sinni. Þetta er skynsemdardýr og skilar sér ævinlega aftur heim. Líður báðum stórvel. A.m.k. meðan við hugsum ekki um íhaldið. Kaffið búið af könnunni. Líklega best að leggja sig aftur og vita hvort mig dreymir ekki eitthvað fallegt. Vakna svo fílefldur á ný. Og segi við sjálfan mig: Hér kem ég, fullur orku og fús til starfa. Með kveðju frá yfirbloggara Suðurkjördæmis. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Er einn af þessum dögum í verðlaun fyrir rétt svar?
 
Ef enginn nær að giska rétt verða engin verðlaun. En sá sem giskar rétt gæti orðið þess aðnjótandi að deila einhverjum þessara daga með Fiskihrelli.Og það mun verða bjór og koníak á barnum í nýja glæsivagninum.
 
Ætli við látum ekki svar MS duga.Fiskihrellir ætlar sem sagt að hrella þessa nefndu daga. Og flesta grunar hverjir muni verða fyrir þessum hrellingum.Og koníakið verður á sínum stað. Til hamingju með getspekina MS.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online