Monday, June 13, 2005

 

Smáaurar.

Búið að hvítþvo Dóra. Glansandi æra og allt í þessu fína lagi. Hagsmunir hans og fjölskyldunnar voru nefnilega smávægilegir. Bara 87 milljónir. Það er auðvitað þvílík skiptimynt að það eru bara hrekkjusvín og fantar sem finnst taka því að minnast á það. En ég segi nú við Dóra eins og sagt var við Hannes Hólmstein hérna á dögunum: Hefurðu enga sómatilfinningu? Ég er reyndar sannfærður um að ráðherrann telur sína sómatilfinningu í besta lagi. Þegar veruleikafirringin hefur heltekið menn á þennan hátt, þá missa þeir algjörlega hæfileikann til að geta skammast sín. Þetta er auðvitað alltsaman þyngra en tárum taki. Sýnir einfaldlega hvernig siðferðið í íslenskum stjórnmálum er orðið.

Í gær var sumar hér sunnanlands. Hitinn komst í 20,1 gráðu kl. 7 í gærkvöldi. En það er spáð rigningu á föstudaginn. 17. júní lætur ekki að sér hæða. Ég var eiginlega búinn að ákveða að skjótast inní Veiðivötn á laugardaginn. Með einn áttræðan kall með mér. Sá hefur aldrei komið þar svo veðrið skiptir auðvitað öllu. Lítið gaman í þoku og rigningu. Veiðistöngin verður ekki meðferðis nú. Það bíður til 12. ágúst. Kannski breytist spáin og þá drífum við okkur.Fremur rólegt á vinnustað þessa dagana. Hundleiðinlegt að hanga innandyra hálfiðjulaus.Þó mér finnst svo sem ágætt að slappa af annað slagið og vera bara latur, þá er óhemjuleiðinlegt að hanga við skrifborð og bíða eftir að tíminn líði. En það eru hæðir og lægðir þarna eins og í öllu öðru. Lífið er einfaldlega bylgjuhreyfing. Allt eins og það leggur sig. Stundum rótfiskast og svo er ördeyða á milli. Stundum er gaman og í annan tíma bara leiðinlegt. Við verðum líklega öll að sætta okkur við það. Hitti öll systkini mín í gær. Settum sumarblóm á leiði gömlu hjónanna í blíðunni í gærkvöldi. Hittumst nú sjaldan öll 4. Helst við þetta tækifæri. Ég ætti kannski að fara að panta mér leg í garðinum. Vil liggja í norðausturhorni garðsins. Þaðan hlýtur að vera gott að fylgjast með laxinum ganga upp ána. Er nú samt að vona að langt sé í það. Og hyggst festa öngul í mörgum löxum áður. Hösmagi, dreymandi um stóra fiska og aðra aðeins minni.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online