Tuesday, June 21, 2005

 

Sumarsólstöður.

Sumarsólstöður í gær. Og Jónsmessa á föstudaginn. Sagt er að gott sé að velta sér upp úr næturdögginni aðfaranótt Jónsmessu. Og allsnakinn, nota bene. Vissara að velja sér rétta staðinn því ekki má særa blygðunarsemi náungans. Getur varðað tugthúsvist. Ég hef aldrei reynt þetta. Oft ætlað að gera það en framkvæmdir orðið því minni. Kannski ég drífi mig bara upp í Hellisskóg og láti verða af þessu aðfaranótt næsta föstudags. Bíð þó enn vonglaðari eftir laugardeginum og laxinum sem ég vona að bíði þá eftir mér. Nú hafa menn reynt fyrir sér í Ölfusá í 2 daga og laxinn lætur bíða eftir sér. Kannski er hann ekki kominn eða veiðimenn ekki nógu snjallir. Sjáum bara hvað setur. Ekkert koníak í verðlaun núna. Reyndar þarf enga gulrót fyrir mig fremur en endranær þegar möguleiki er á fiski. Ég hef þó mjög góða tilfinningu fyrir þessu sumri. Og alltaf er vonin til staðar um " þann stóra" Aldrei tekist að landa 20 pundara en hef þó sett í þá. Og stóru fiskarnir sem tapast hafa stækka alltaf í huga veiðimannsins. Við drögum ekki úr heldur aukum heldur í. En fiskarnir sem við missum verða minnistæðari en hinir sem við náum á land. Ég er t.d. oft að hugsa um stærðina á laxi sem hafði betur 8. júlí 1990. Hrikalegur drellir. Örugglega nær 30 pundum en 20. Verður örugglega yfir 30 þegar ég verð sjötugur. Ég hyggst vinna eins lengi og heilsa og aðrar aðstæður leyfa. En það verður líka dásamlegt að eiga endalaust sumarfrí og dunda við veiðiskap. Þegar þar að kemur. Mun gera það meðan ég stend í lappirnar og jafnvel lengur. Hösmagi sendir ykkur kveðjur í heiðríkjunni.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online