Thursday, June 09, 2005

 

Þýðist löngum þjófakyn.

Kominn 10. júní og dásemdarveður. Fyrir mörgum árum tók ég að mér málsvörn fyrir bónda, sem var stefnt fyrir meiðyrði. Hann skrifaði sveitunga sínum einkabréf þar sem hann kallaði hann þjóf. Náunginn var alræmdur fyrir hvinnsku. Sem sagt hirðusamur í meira lagi. Skjólstæðingur minn var mjög pennafær. Bréfið var þrælskemmtilegt aflestrar en þjófurinn kunni ekki að meta það. Réð sér lögmann og stefndi bónda. Og það fór eins og oft áður að erfitt varð um sannanir gegn þessum fingralanga sveitunga bóndans. Bóndi varð að greiða honum fé fyrir árás á hans óflekkuðu æru. Og greiða tveim lögmönnum þóknun að auki. Það sama gerðist í þessu máli eins og í flestum dómsmálum á Íslandi. Ranglætið bar sigurorð af réttlætinu. Annar sveitungi bóndans sagði mér að nú skyldi ég eiga von á jólakorti frá honum. Og sér kæmi ekki á óvart að það yrði vísa með því. Leið svo að jólum og ég fékk mitt kort. Á því voru hlýjar kveðjur til mín og vísa á miða.

Þýðist löngum þjófakyn
þykir að frómleik ringur,
þó við tállaus tilskrifin
talsvert styttust fingur.

Ég fann þennan miða í flutningunum í haust. Reyndar marga aðra skemmtilega miða. Lausavísur sem ég var löngu búinn að gleyma. Skemmtilegt.

Það var virkilega gaman að sækja þau skáldið og heitkonuna til Keflavíkur á þriðjudaginn var. Fórum Krýsuvíkurleiðina heim á Selfoss og þau héldu síðan á litla Lanca til Reykjavíkur. Skáldið er nú að stangveiðum í Baugsstaðaósi. Gott veiðiveður. Tel víst að að skáldið njóti sín þarna núna. Hvaðan skyldi það hafa áhugann á veiðiskap? Gettu tvisvar. Hösmagi, harla hress að morgni dags.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online