Monday, June 20, 2005

 

Gerfisumar.

Líklega eru bara gerfisumur á Íslandi. A.m.k. ekki skandinavísk sumur. Hér verður fólk bara að klæðast húfum og vettlingum. Svei því bara. Fyrir 25 árum var ég í Stokkhólmi. Það var skandinavískt sumar og indælt að labba um gamla Stan. Og koma til Dronningholm. Samt fannst mér yfirgengilega gott að koma heim til Íslands aftur. Í þetta íslenska sumar. Flaug heim með næturflugi frá Köben. Kom heim undir morgun og gat ekki látið sofandi skáldið í friði. Reif það upp úr rúminu og faðmaði það að mér. Fékk ákúrur frá þáverandi tengdamóður.Lét mér það í léttu rúmi liggja. Ég hafði saknað skáldsins. Og þegar talað er um tengdamæður kemur mér í hug sagan af prestinum sem þrumaði yfir lýðnum. Úthúðaði áfenginu og sagði það gera menn viti sínu fjær. Sagði að þeir ættu til að grípa til byssunnar og skjóta á tengdamæður sínar. Og það sem verra væri að ölvunin leiddi til þess að þeir hittu þær ekki. Grafalvarlegt mál að sjálfsögðu.
Ég minntist á glansandi æru forsætisráðherrans um daginn. Vonandi hefur ekki komið stór blettur á hana þó hann hafi verið staðinn að ósannindum þegar hann las upp hreinsunardókúmentið. Hann sagði að hann og fólk honum skylt ætti rúm 25% í í fyrirtækinu Skinney-Þinganesi. En gat þess ekki að sama fólk ætti 50% í fyrirtækinu Ketilaugu sem aftur ætti 18% í Skinney Þinganesi. En auðvitað eru þetta smámunir. Bara 9% í viðbót. Ævilaun verkamannsins eru bara smáurar þegar forsætisráðherra á í hlut. Hver sannleikselskandi maður veit að að það eru bara kommúnistar og önnur kvikindi sem eru að " koma höggi á forsætisráðherra" Og framsóknarflokkinn. Ef einhver hefur uppi minnstu gagnrýni þá er bara um pólitískar ofsóknir að ræða. Mér er hulin ráðgáta af hverju ríkisendurskoðandi var fenginn í þessa hreingerningu. Skiptir ef til vill engu máli. Nóg til af öðrum hreingerningamönnum til að þrífa burt aurinn sem kommúnistar ausa yfir ráðherrann. Hjálmar Árnason til dæmis. Og Birkir og Björn Ingi. Allir afburðagóðir í skúringum. Það verður gaman að fylgjast með framvindunni. Og aðferðunum sem notaðar verða. Röksemdunum þekktu að sá sem ekki er með mér er á móti mér. Svona eins og allir andstæðingar Íraksstríðsins voru stimplaðir sem vinir og varnarlið Saddams Hússeins. Aldeilis skotheld rök. Eða finnst ykkur það ekki? Hösmagi, hóflega ánægður með æruþvottinn.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online