Sunday, June 19, 2005

 

Rekja.

Nú hvolfist regnið úr loftinu. Mjög gott á skraufþurra jörð. Vona að þessi væta dugi til að fá ánamaðkana upp á yfirborð jarðar í kvöld eða nótt. Nú herðir hann sig upp um allan helming og mér kemur í hug vísan Regnið þétt til foldar fellur o.s.frv. Bókstaflega mótar ekki fyrir Ingólfsfjalli. Sólin skein í heiði í gær. Og það var fallegt í Veiðivötnum og alltaf jafn ljúft að koma þar. Svo eru staðir sem eru bara fallegir þegar vel veiðist. Eins og sagt er um Grindavík. Það er nú ekki oft sem dyrabjöllunni er dinglað hér. Gerðist þó í gærkvöldi. Frúin í næstu íbúð. Er á leið til Portúgal í fyrramálið með dóttur sína unga. Og þá er það skógardýrið ógurlega sem er vegalaust heima á meðan. Konan spurði hvort mögulegt væri að ég gætti dýrsins á meðan. Í hálfan mánuð. Og það kom mér náttúrlega í koll að vera með afbrigðum bóngóður maður. Sagði frúnni að ég væri í fullu starfi og svo að veiða á milli. En þetta varð úr. Ég ætla sem sagt að gefa kisa garminum að éta á meðan, en hann verður nú að sjá um sig sjálfur að mestu leyti. Glugginn verður opinn heima hjá honum og ætli ég verði ekki að hafa það eins hér. Engan sá ég laxinn við Ölfusá í dag. Vona að hann komi á slaginu 7 þann 25. Árleg eftirvænting og hugurinn stendur til stórræða. Fékk þann fyrsta í fyrra. Á æskrím étur hann. Mont og mynd í Mogga fylgdi á eftir.Sumarið 1999 var hlaup úr Hagajökli í ánni. Daginn fyrir fyrsta veiðidaginn minn kom ég upp á Miðsvæði og þar voru menn að reyna að veiða í kolmórauðu vatni. Frétti þá að stjórnin hefði ákveðið að veita koníaksflösku í verðlaun fyrir fyrsta laxinn. Þetta var um kl. 8.30 þann 22. júní og því einn og hálfur tími eftir af veiðitíma. Og þá gerði ég það sem ég hafði aldrei gert áður og aldrei síðan, að óska þess að þessir veiðimenn veiddu ekki neitt. Og það gekk eftir. Mætti svo galvaskur kl. 7 um morguninn. Settist að í Klettsvík og dorgaði með ánamaðki og horfði á moraða ána. Kl. 9.30 fannst mér eins og seiði væri að naga ánamaðkinn. Svo hætti bara nartið. Og ég beið rólegur og var við það að sofna á bakkanum. Stóð svo upp og rétti upp stöngina. Og viti menn. Bráðlega lá 13 punda nýgengin hrygna á bakkanum. Hafði bara rennt maðkinum rétt si svona ofan í maga. Og það sannaðist þá að fljótt flýgur fiskisaga. Fyrst kom ljósmyndari og stuttu síðar koníakið. Flaskan var þó ekki afmeyjuð á staðnum. Það beið betri tíma. Enn innihaldið rann að sjálfsögðu ljúflega niður svona smátt og smátt. Svona er nú skemmtilegt að rifja upp fyrir gamla veiðirefi. Og það er líka skemmtilegt að hugsa til jafnskemmtilegra atvika sem eiga eftir að gerast. Hösmagi, með hugann við komandi ævintýradaga.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online