Sunday, April 17, 2005

 

Það andar af suðri.

Það andar af suðri, yndislegt veður í bænum. Mér komu þessar upphafslínur úr kvæði í hug í morgun. Vorið er á leiðinni.Skárri í dag eftir einhverja andskotans luðru. Kom hríðskjálfandi úr vinnunni á föstudaginn, fór í lopapeysu, undir dúnsængina og hélt áfram að skjálfa. Kannski eftirhreytur frá þeima arma skálki, Rumsfeld. Held ég hafi sigrast á þessu og það án day nurse og skáldsins míns. Sem sagt allt í nokkuð góðum gír. Langt komin með að ljúka við framtölin. Öllu skal lokið fyrir mánaðamót. Og þá taka við endalausir leikir. Vinnan truflar þá að vísu en lítið við því að gera. Nú eru rúmir 2 mánuðir í þann eðla fisk, laxinn, en silungarnir eru líka fiskar. Ég sagði í síðasta bloggi frá hálendisfiðringnum. Það sló nú á hann aftur enda var hér linnulaust slagveður í allan gærdag. Líklega bíða Laugarnar enn um sinn. Aurbleyta og snjór enn á þeim slóðum. Kannski bíð ég líka eftir skáldinu. Dómadalsvatn, Ljótipollur og Frostastaðavatn í leiðinni inneftir. Og jafnvel mætti athuga Kirkjufellsvatnið. Man vel eftir þegar skáldið veiddi fyrsta fiskinn þar. Var afar smár og faðirinn sleppti honum í vatnið aftur. Þá varð skáldið skyndilega dapurt. Þetta var þess fiskur og það var nú ekki góður pabbi sem hagaði sér svona. En eins og jafnan áður og jafnan síðar urðum við vinir á ný. Skáldið veiddi sem sé þó nokkra fiska til viðbótar. Fátt er fegurra á Íslandi en líparítið í Landmannalaugum. Einkum eftir rigningu og sólin fer að skína. Svona álíka og sólarupprásin í Veiðivötnum á fallegum sumardegi.Það er blátt áfram unaðslegt að eiga þetta allt í vændum í sumar. Hösmagi er með hugann við þessar dásemdir nú á sunnudagsmorgni. Bestu kveðjur í allar áttir, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online