Sunday, April 03, 2005

 

Blessaður páfinn.

Komiði sæl. Páfinn genginn á vit feðra sinna. Líklega nokkuð góður kall.Fyrsti páfi í 400 ár sem ekki var Ítali. Og nú hefjast seremóníurnar.Kardínálarnir lokaðir inni þar til nýr páfi hefur verið fundinn. Og fólkið fylgist með reyknum sem stígur upp um stromp kapellunnar. Þeir kjósa og kjósa. Meðan ekki fæst niðurstaða er reykurinn dökkur. Dökkur af bruna stráanna sem þá eru brennd með atkvæðaseðlunum. En þegar björninn vinnst liðast ljós reykurinn af pappírnum einum upp í loftið. Vonum bara allra vegna að þeir finni þann eina rétta.
Svolítið bakslag hjá blessuðu vorinu hér. Kuldaskítur fram eftir nýbyrjaðri viku.Það lagast vonandi brátt. Fyrsti dagurinn í langan tíma sem vinur minn í næstu íbúð hefur ekki litið inn. Þessi með skottið loðna. Orðinn nokkuð tíður gestur hjá mér og aufúsugestur. Langt síðan ég hef heyrt malað með álíka krafti. Fyllist stundum smáöfund yfir að búa ekki yfir þessum skemmtilega hæfileika. Annars er ég bara nokkuð ánægður með tilveruna. Klukkan orðin 9 og dágóð skíma. Stutt í hinar albjörtu nætur. Líklega eru þessar björtu nætur það besta við landið okkar. Sannarlega tilhlökkunarefni. Sá nýtt blogg frá hálfkaþólsku frúnni. Óska henni til hamingju. En það heyrist lítið frá golfaranum. Stendur vonandi til bóta.Þar sem andleysið er að ná yfirtökunum og lífsspekin stendur kolföst einhversstaðar í heilasellunum kveður Hösmagi að sinni. Bestu kveðjur.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online