Wednesday, March 23, 2005

 

Samfylkingin.

Undirritaður er kominn í páskafrí. Dásamlegir dagar framundan. Brauð og leikir. Reyndar nokkur bréf til skattmanns að auki. Ég var að lesa bloggið hans nafna míns í Stokkhólmi. Hvetur fólk til að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu til formanns í Samfylkingunni. Nú er það svo að mér stendur á sama hver stjórnar þessum flokki. Ef flokk skyldi kalla. Lengi vel var eina stefnumið flokksins að koma íslendingum í evrópusambandið. Í fyrra eignaðist þessi hugsjónalausa moðsuða nýtt stefnumál. Sem sé að markaðsvæða heilbrigðiskerfið. Ég hélt nú að vinstri menn þekktu afleiðingarnar af slíku. T.d. í Bandaríkjunum. En hvað hefur Ingibjörg fram yfir Össur? Kynferðið ef til vill? Ég man vel eftir Össuri í sjónvarpinu fyrir mörgum árum. Þá var hann í framboði fyrir Alþyðubandalagið í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Hann grátbað um stuðning svo hann gæti " haldið áfram að slást við íhaldið" Honum varð ekki að ósk sinni. Síðar gekk hann í Alþýðuflokkinn. Væntanlega með von um skjótari frama þar. Og honum varð að ósk sinni. Var gerður að umhverfisráðherra í einni íhaldsstjórnininni. Og það varð lítið um slagsmál við íhaldið. Undi vel hag sínum með því og skrifaði uppá það sem fyrir hann var lagt. Ég hafði lengi vel nokkra trú á Ingibjörgu. En það er liðin tíð. Eftir að hafa opinberað yfirgengilegt dómgreindarleysi sitt fyrir síðustu Alþingiskosningar og að auki gengið á bak orða sinna sáu þeir sem sjá vildu að hún hefur fengið sinn skerf af ákveðnu geni. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar fólk hefur oftrú á sjálfu sér og telur sig geta nánast hvað sem er. Vera páfann sjálfan eða jafnvel guð almáttugan. Þessir aumingjans nytsömu sakleysingjar sem malla í moðsuðunni hafa reyndar bara tvo kosti. Og báða slæma. Verði þeim að góðu. Veit að margir þeirra vitkast þó síðar verði. Gleðilega páska. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online