Friday, March 25, 2005

 

Fílingur.

Það er kominn vorhugur í undirritaðan. Á langa Frjádegi lagði ég land undir hjól og hélt til veiða í Tangavatni. Kom að vatninu fullur lotningar og eftirvæntingar. Held að Herconinn hafi verið farinn að titra. Og Ambassadorinn einnig. Indælis veður, þurrt, 8° og nánast logn. Og silungurinn lét strax blekkjast. Kannski ekki búist við að egnt væri fyrir hann á þessum degi. Ég tel það nú samt ekkert sérlega ókristilegt að veiða fisk á föstudaginn langa. Það er alltaf sama ólýsanlega kikkið sem fæst úr fyrstu töku ársins. Ég veiddi 14 ágæta urriða og einn smálax. Fjórum gaf ég líf aftur þannig að ég hélt heim sæll og glaður með 11 fiska. Reyndar engan mjög stóran. 2-3 pund vógu þeir allir. Búinn að hafa það alveg þrælgott það sem af er páskahátíðinni. Begga, eiginmaður og dóttir komu í heimsókn á skírdag. Magnús, Borghildur og synir í gær. Og svo hringdi skáldið mitt í gjarkvöld. Getur gamall fauskur beðið um meira? Eða eins og Jón Grindvíkingur hefði sagt: Sem sagt gott. Ég hef dundað við framtölin svona með öðru. Búinn að senda 50 framtöl á vefnum. Og eitt bréflega. 78 ára gamall vörubílstjóri treystir ekki netinu. Hefur ætíð skilað framtalinu á skattstofuna í eigin persónu. Og þannig mun það verða. Hið besta mál að sjálfsögðu. Reyndar gerði ég framtalið hans á netinu, prentaði það síðan út og þannig fór sá gamli með það.Nú eru tæpir 3 mánuðir í laxinn í Ölfusá. 13 dagar í sumar. Ákaflega góð tilhugsun. Segir svo hugur um að ég muni fáann í sumar.Þó ég sé löngu hættur að skjóta fugla er stangveiðiástríðan söm við sig. Vex jafnvel með árunum. Haglabyssan samt enn inní skáp. Reyndi hana síðast fyrir 3 árum. Gataði bjórdósir í stað fugla.Fullvissaði mig um að ég get enn skotið af byssu. Ég hugleiddi aðeins hvort tæki fyrir veiði þegar ég skipti um bifreið. 1990 tók fyrir alla veiði þegar ég lét Súbarúinn fyrir Bronko jeppa. En eins og Sölvi sagði tók gamli Súbarúinn mig í sátt. Nýi gráni verður góður veiðibíll. Sannaði það í gær með góðri byrjun. Mér kæmi ekki á ávart að hann þyrfti að bera nokkur kílóin úr Veiðivötnunum í ágúst. Eins og þið sjáið er hinn lífsglaði Hösmagi með miklar væntingar til sumarsins. Og veðurspáin er mjög góð langt fram í næstu viku. Vellíðan á sál og líkama. Bestu kvðjur, Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online