Monday, March 14, 2005

 

Háðungin.

Gott kvöld gott fólk. Það er örugglega ekki sá 13. í dag. 14. mars mun það vera 2005. Hress og kátur karl hélt til vinnu sinnar í morgun. Skítakuldi að vísu en lundin létt eftir afrek helgarinnar. Dagurinn leið og störfin gengu að óskum. Ég þurfti að ljúka erindum í þessu sunnlenska smáþorpi áður en heim yrði haldið. Að því búnu renni ég í hlað á mínum eðalvagni. Opna bílskúrinn af færi og bruna inn. Önnur fjarstýringin er sem sé í vagninum en hin í forstofunni í íbúðinni. Sem ég hef lokað bílskúrshurðinni með rofa sem er rétt innan við dyrnar og skotist út, ætla ég mér að taka upp lyklana að íbúðinni. En þar voru bara engir lyklar. Varalykill í hanskahólfi bílsins sem ég hafði nýlæst inní skúrnum. Vegalaus maður í frosti og norðanbáli. Allar bjargir bannaðar. Enginn aðgangur að lykli eða fjarstýringu.Nú voru góð ráð dýr. Var þó með farsímann í vasanum og hringdi í Þröst, annan þeirra Bakkabræðra. Rifa var á glugga á norðurhlið bílskúrsins. Hann er nógu stór til að skríða innum. Eftir vangaveltur var ákveðið að rífa stormjárnið í tvennt og skríða inn. Það tókst vonum framar og nú var hægt að opna skúrinn innanfrá. Ég leitaði í hanskahólfinu. Og viti menn. Þar var varalykillinn. Þröstur hélt á brott og ég tríttlaði léttstígur að útihurðinni og stakk lyklinum í skrána. Hún opnaðist undralétt. Eitthvað fannst mér þetta þó undarlegt. Við mér blasti plastpoki með skattframtali Sigurgeirs Hilmars. Hvernig hafði hann laumast inn um læstar dyrnar. Skýringin var augljós. Vegna tíðra mannaferða hingað um helgina hafði ég tekið lásinn af og íbúðin því ólæst síðan á laugardaginn. Ef ég væri pínulítið geðstirður hefði ég sjálfsagt orðið alveg kolóður. En þar sem ég er kunnur geðprýðisstöngull brosti ég bara út í bæði. Minnti mig á þvottinn á fjarstýringunni um daginn. En háðulegt var þetta. Á morgun mun ég planta lykli hjá bróður mínum á Birkivöllum. Eða bara á vinnustað. Líklega væri lífið bara leiðinlegt ef svona hlutir kæmu aldrei fyrir. Og mikið lifandis ósköp var notalegt að koma inn í hlýjuna. Leggst til hvílu í kvöld með sól í sinni. Megi gleðin vera hjá ykkur, krúttin mín. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Gleðin er hjá mér, og skal ég við krúttinu gangast enda af hinni svonefndu Krúttkynslóð með stóru K-i eins og frægt er orðið.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online