Tuesday, December 08, 2009

 

Eitur.

Ég er búinn að reykja í 45 ár. Síðustu 38 árin hef ég reykt Bagatello. Danska vindla sem eru nú andskoti góðir. Þegar vinir mínir hafa talað um að ég ætti að hætta að reykja hef ég stundum sagt að lífsnautnamaður sem er hættur að nota áfengi og nennir varla að eltast við pils lengur verði nú að hafa eitthvað eftir til að hugga sig við.Nú er ég þó einfaldlega hættur að reykja. Það er bara ný staðreynd og ég er glaður með að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég geri hlutina stundum svona. Dríf í þeim og punktum og basta. Ég sakna að vísu vindlanna minna ennþá. Það er eðlilegur hlutur og ég er að tyggja nikótín mér til hugarhægðar þessa dagana. Ég er samt strax farinn að græða á þessari ákvörðun. Hver vindill kostar 67 krónur og fimmtíuaura og oft reykti ég 20 stykki á sólarhring. 1.350 krónur x 365 gera 498.225 krónur. Þó krónan sé ekki burðug má þó gera ýmislegt fyrir hálfamilljón. Ávinningurinn er þó miklu meiri en þessi hálfa milljón. Loftið verður betra, svefninn, matarlystin og líkaminn verður örugglega feginn líka. Þetta er sem sagt hið besta mál. Ég ætla þó ekki að gerast predikari gegn tóbakinu. Ég tek ákvörðun fyrir mig og ætla að láta aðra ráða fyrir sig. Steingrímur garmurinn missir einn tóbaksþrælinn frá sér og nú ulla ég bara á nýjar álögur á vindlana mína. Ég ætla að vera andskoti ánægður með sjálfan mig yfir þessum nýja lífsstíl. Kannski ég gerist bara skjortejæger á ný? Aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

Við Kimi erum slakir og rólegir heimavið. Nokkrar mislitar perur farnar að loga hér innanhúss. Rólyndisveður þó myrkrið grúfi yfir. Það er mjög góð veðurspá svo langt sem hún nær. Það léttir lund og gleður sál. Nú bíð ég eftir að heyra frá spítalanum. Ég er í startholunum en slakur og rólegur áfram. Allt hefur sinn gang. Rólyndið og jafnlyndið sem mér hefur svo oft verið tamt að tala um hér ríkir og þá ganga hlutirnir vel. Við rauðliðarnir sendum ykkur öllum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Nú er bara að segja bless við kjötið líka og þá ertu orðinn algjörlega háheilagur maður. Góð ákvörðun annars. Gætir fengið nokkra góða daga í Aðaldalnum á besta stað fyrir sparnaðinn, ekki satt? (Þó að slík snobbvera sé nú örugglega alveg hundleiðinleg. Betra að fiska í vatni sem kostar ekki sex stafa tölur)
 
Nei, nafni minn góður. Sauðaketið er að verða fullreykt niður á Stokkseyri og svo sannarlega er ég ákveðinn í að éta það upp til agna um jólin. Ég fæ mér eins marga daga og kostur er á í Ölfusá næsta sumar. Bestu kveðjur.
 
Mig dreymdi að ég hefði keypt fokdýran dag í Rangánum með Kolbeini en við verið eitthvað seinir fyrir og rétt að byrja að gramsa í draslpokum eftir flugum, staddir í rútu á Selfossi, þegar seinni vaktin átti að byrja. En það er nú ekkert á við að reykja samt. Til hamingju með þetta! Kveðjur frá Njálsgötu 15, Sölvi og co.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online