Sunday, December 06, 2009

 

Stund milli stríða.

Við Kimi erum hér heima í rólegheitunum.Tæplega bloggfært vegna náinnar nærveru þess rauðbröndótta. Ég kom heim af LS seinnipartinn í gær. Allt gekk nokkuð vel og ég verð allavega heima þessa viku. Kisi varð harla hress þegar undirritaður birtist í gær og við höfðum það gott hér fram eftir kvöldi. Veðrið er dásamlegt og mikið af snjónum hefur tekið upp. Rétt rúmur hálfur mánuður í vetrarsólstöðurnar og þá fer aftur að birta. Það var svolítið skrítin tilfinning að yfirgefa spítalann í gær. Vindlarnir voru í vasa mínum og að sjálfsögðu langaði mig í vindil. Ég ákvað að bíða uns heim kæmi. Einhvernveginn tókst mér að þrauka gærkvöldið af vindlalaus. Ég var búinn að ákveða að hætta að reykja þann 31. janúar á næsta ári. Ef ég tel í klukkutímum þá eru nú 54 tímar síðan ég drap í á lóð spítalans. Það er að koma upp í mér þrákelkni. Ég get hætt. Ég finn það og veit það.Ég ætla að reyna þó ég viti að ég geti fallið. Það vinnst margt við að leggja vindlana til hliðar. Betra loft hér,betri heilsa til frambúðar og svo kosta vindlarnir sitt. Allavega er tilraun hafin og ég vona að þetta takist. Pistlar mínir hér hafa strjálast að undanförnu. Kannski er nú líka fullmikið að vera á fésinu og með 2 bloggsíður. Nú eru að verða 5 ár síðan ég byrjaði úti í Edinborg og oft haft gaman af þessu. Ég hef oft bloggað um pólitíkina. Nú um stundir er ég svo yfirmáta leiður á íslenskum stjórnmálum að það hálfa væri nóg. Örugglega langbest að setja þau á frost í bili og sjá bara til hverju fram vindur. Ég hef líka ævinlega rekist illa í flokkspólitík og farið mínar eigin leiðir. Sólin skín og góða loftið írist inn um gluggann. Við Kimi sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online