Monday, December 14, 2009

 

Yndisauki.

Það var sannkallaður unaður að bregða sér út í morgun. Hitinn 9 gráður og ekki bærðist hár á höfði.Svaladyrnar standa opnar og stór fiskifluga er á sveimi í stofunni. Eins gott fyrir hana að Kimi er utandyra að hnusa af góðviðrinu. Nú nýtur maður blíðunnar enn betur en áður. Enginn reykur og nú eru 10 sólarhringar liðnir í betra lofti. Sem betur fer reynist mér þetta fremur auðvelt. Ég gríp þó í tyggjóið annað slagið en það ætla ég ekki að gera til langframa. Þetta er búin að vera afar róleg helgi hjá okkur Kimi. Ég tók svefnherbergið og baðherbergið í gegn í gær og er andskoti ánægður með mig. Ég er jafnvel að hugsa um að bregða mér í Tangavatn einhvern næstu daga. Herconinn verður örugglega til í það. Tæp 12 ár frá stórveiði minni þar þann 20. desember 1997. Fiskurinn í vatninu er af stofni Veiðivatnaurriðans og er alveg prýðisgóður. Ég er búinn að kaupa nokkrar jólagjafir, byrjaður á jólakortunum og svo þarf fljótlega að huga að saltlærinu. Hinu eina og sanna jólalæri. Búið að reykja sauðinn úr Selvoginum svo það verður eitthvað hér á borðum um jólin. Kimi er reyndar ekkert fyrir hangikjöt en hann fær humar í jólamat.Hann er aldeilis búinn að njóta undanfarinna daga. Talsvert útivið og liggur svo gjarnan í glugganum með trýnið út í blíðuna. Ég held mínum áralanga vana sömuleiðis með útiveru á morgnana.
Síðustu dagar móður minnar eru nú loks fáanlegir á Selfossi. Það hefur sannarlega glatt mig einlæglega hvað þessi bók fær frábæra dóma. Gott að svo margt fólk skuli nota jafn mörg sterk orð til að lýsa ágæti þessarar sögu. Með allri virðingu fyrir öðrum nýútkomnum bókum. Skáldið mitt getur sannarlega verið stolt af þessu verki og vonandi verður umfjöllunin til þess að sem allra flestir lesi það. Sjálfur ætla ég að lesa það aftur bráðlega.

Þó myrkrið sé svart þessa dagana er tilveran ágæt í svo dásamlegu veðri. Engin merki enn um byl né hríð. Aðeins 18 dagar eftir af árinu og vonandi ber nýja árið hið góða í skauti sér. Við félagar og stórvinir sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hér í Danaveldi er hvít jörð og kalt. Myndi glaður skipta við þig.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online