Saturday, December 26, 2009

 

Fimm ár og fimm dagar.

Ég átti 5 ára bloggafmæli á mánudaginn var. Sólstöðudaginn sjálfan.Skáldið mitt kynnti mig fyrir þessari veröld útí Edinborg í hinni ágætu íbúð við Lögmannastræti.
Þessi pistill er númer 667. Nokkuð dregið úr skrifunum hér eftir að ég fór að skrifa á Moggabloggið og svo bættist facebook við í október s.l. Mér finnst þó enn vænt um þessa síðu. Ekki síst vegna upphafsins. Það var rétt áður en heimsvaldaflensan lagðist yfir mig. Þetta var árið 2004. Árið sem Þorláksmessa hvarf og ég reis upp frá dauðum um hádegi á aðfangadag og átti yndisleg jól með Helgu og Sölva. Skáldið tók til sinna ráða og lífgaði mig við með Day Nurse. Kraftaverkalyfi, sem er bannað á Íslandi. Ég mun örugglega bæta við pistlum hér annað slagið. Skrifa um það sem mér dettur í hug, heimsins gagn og nauðsynjar. Pólitíkin á ekki beinlínis uppá pallborðið hjá mér nú um stundir. Lífsskoðanir mínar hafa þó ekkert breyst.Vonbrigðin með núverandi ríkisstjórn eru reyndar nokkur en þó ekki eins mikil og tilefnið gefur til. Ég bjóst ekki við miklu vegna þess hvað flokkarnir eru ólíkir.Og ekki breyttu kosningaúrslitin neinu um álit mitt á íhaldi og framsókn. Afar raunalegt að fylgjast með þessum flokkum á þinginu um þessar mundir.Þó skipt hafi verið um forustu breytir það engu um gerðir þessara flokka. Sporin hræða og málflutningur Sigmundar, Höskuldar og Bjarna Ben er brjóstumkennanlegur. Jóhanna orðin þreytt og ætti alls ekki að standa í þessu lengur. Það versta er meinloka Steingríms í icesave málinu. Málflutningur hans mér óskiljanlegur. Hann virðist vera í herkví og reynir að halda samflokksmönnum sínum sem eru honum ósammála í skefjum með öllum tiltækum ráðum. Það er arfaslæmt og vitlaust. Lengi skal manninn reyna og álit mitt á Steingrími, mínum fyrrum uppáhaldsstjórnmálamanni er í lágmarki.Sérstaklega er athyglisvert hvernig hann hefur komið fram við fyrrum vopnabróður sinn, Ögmund Jónasson. Tók m.a. undir lygarnar um að Ögmundur hefði flúið vandamálin í heilbrigðisráðuneytinu. Allt heiðarlegt fólk veit þó betur. Jóhanna rak Ögmund úr þessari " norrænu velferðastjórn" af því hann undi ekki tvíræði hennar og Steingríms. Skoðanakúgun og andlegt ofbeldi eru ekki góð tæki í pólitíkinni. Þau Steingrímur og Jóhanna vilja kúga aðra til að samþykkja ríkisábyrgðina á icesaveþrælaböndunum. Fjötrum, sem mjög miklar líkur eru á að geri þessa þjóð gjaldþrota. Hræðsluáróðurinn notaður til að kúga þingmenn til að samþykkja að greiða einkaskuldir sjálfstæðisflokksins svo við " komust áfram". Áfram hvert? Inní ESB? Eða fram af bjargbrúninni? Eða hvoru tveggja? Það er vitað að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti þessari nýju ríkisábyrgð. Steingrímur og Jóhanna vita það líka. Valdafíknin, forræðishyggjan,draumórarnir og misráðin vissa um eigið ágæti knýja þetta par áfram. Vonandi tekst á síðustu stundu að fella þetta frumvarp. Er ekki nær að við herðum sultarólina nú en að börnin okkar og barnabörn, fædd og ófædd, geri það? Þetta er bara hundfúlt allt saman.

Kimi sefur á bakinu með kviðinn upp á gamla tágastólnum. Mikil kyrrð, hitinn rétt undir frostmarkinu úti en hlýtt og notalegt hér inni hjá okkur.Ég er íklæddur flotta náttserknum sem Hrafnhildur Kristín, Helga og Sölvi gáfu mér í jólagjöf. Buxur í stíl fylgdu. Ég gæti sem best farið á ball í þessu dressi. Virkilega töff og smart. Afar rólegur jóladagur hjá okkur kisa. Saltlæri með baunum og kartöflum. Rúgbrauð og jólasíld og svo humar fyrir Kimi. Loftið hér miklu betra eftir að reykurinn var gerður útlægur. Það verður væntanlega sama letilífið á okkur í dag. Við eigum svo von á Helgu, Sölva og litlunni, HKR, í dag eða á morgun. Þá verður etinn reyktur sauður úr Selvoginum. Við sendum öllum vinum okkar albestu kveður, ykkar Hösmagi.

Comments:
Til hamingju með fimm ára bloggafmælið frá aðdáanda sem fylgst hefur með frá upphafi.

Ekki erum við alltaf sammála um pólitísku sýnina, til dæmis held ég að ég sé á öndverðum meiði við nánast allt í þessari færslu (nema þetta um SDG, BB og þá popúlista alla), en hvaða máli skiptir það? Áfram skal bloggað frá Selfossi.

Kærar kveðjur til SBS, HSE og HKS (sem ég hitti í janúar og get vart beðið).
 
Já Siggi minn, það er gott að eiga einn tryggan aðdáanda og pólitísk sýn skiptir engu. Börnin mín eru mér heldur ekki sammála í pólitíkinni og strákunum mínum finnst ég hafa afdalasýn í evrópumálum. Það skiptir heldur engu máli. Bestu jóla- og áramótakveðjur til þín og þinna.
 
Þakka kveðjurnar og sendi hátíðarkveðjur til baka.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online