Tuesday, October 20, 2009

 

Hræsni íhalds og framsóknar.

Nú er líklegt að icesave málið sé að taka enda. Í bili a.m.k. Kannski ekki alveg útséð um afstöðu allra í VG. Þetta eru að sjálfsögðu bölvuð þrælabönd fyrir íslendinga. Ömurlegt fyrir Steingrím að standa í þessu. Hann er þó saklaus af rót þessa vanda. Þar er sök íhaldsins nær algjör. Davíð afhenti vinum sínum, flokksbundnum sjálfstæðismönnum, Landsbankann. Icesave skuldin er skilgetið afkvæmi þeirra snillinga. Þetta mál var lagað nokkuð til í sumar og og að lokum var ríkisábyrgðin samþykkt með ákveðnum fyrirvörum. Nú segir íhaldið titrandi röddu að þessi lög séu heilög og það séu þjóðarsvik að hreyfa við þeim. Ekki einn einasti íhaldsmaður samþykkti þessi lög í haust. Enginn hinna sjórnarandstæðinganna heldur.Samt ætlar allt af göflunum að ganga. Hin raunverulega ástæða djöfulgangsins er að sjálfsögðu ekki hagsmunir þjóðarinnar. Nú rennur bara ljósið upp fyrir íhaldi og framsókn. Kjötkatlarnir eru fjær en þeir þóttust vissir um. Nú er ég svo sem ekki mjög ánægður með þessa ríkisstjórn. Því fer víðs fjarri. En ég syrgi heldur ekki að von íhaldsins um að hún væri að springa í frumeindir sínar rætist ekki. Sporin hræða.Það voru Geir, Árni Matt og fleiri íhaldsmenn sem lofuðu greiðslu á þessari skuld í fyrrahaust og ISG spilaði undir á fiðlu. Þeir eru fljótir að gleyma íhaldsdrengirnir eins og jafnan áður. Eðlið óbreytt. Eiginhagsmunagæsla, svik og prettir. Strax komnir aftur í skotgrafir sínar og sýndarmennskan í algleymingi. Þegar allt fer úrskeiðis af þeirra völdum er andstæðingunum kennt um og þeir tala um þjóðníðinga og skemmdarstarfsemi. Skyldi mín kynslóð eiga eftir að upplifa einhverja siðbót í pólitíkinni? Ég efast um það. Það er líka varla von til þess þar sem svo mörg okkar eru í násauðarhirð íhalds og framsóknar. Talsvert af þeim í SF líka.

Ágæt ferð í Hafnarfjörð í gær. Hösmagi langflottastur í réttarsalnum. Talfærin svínvirkuðu eins og svo oft áður ef tala þarf fyrir réttlætinu. Kimi varð yfirsig glaður við heimkomu mína. Fjarvistir okkar urðu líka einir 6-8 tímar. Flott veður og græna þruman þrælviljug að venju. Enn snjólaust og það gleður sálina.Fyrsti vetrardagur á laugardaginn. Hann mun líða eins og hinir þó langur verði og mörgum erfiður. En Hösmagi gamli heldur bjartsýninni enn. Rólyndið á sínum stað. Hvorttveggja mikils virði. Við vinirnir sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að fá nýtt blogg - tek undir með því sem í því stendur. Ætli sé nokkuð hægt að gera nema að vona að þessi skuld, ef til greiðslu á henni kemur, verði að mestum hluta afskrifuð?

Annars fórum við HK í langan göngutúr í morgun og engin vetrarmerki á Edinborg. Styttist þó í endurfundi. Bestu kveðjur, Sölvi og familía
 
Rétt og satt, kæri nýorðni facebook-vinur. Steingrímur á lof skilið fyrir framgöngu undanfarinna mánaða. Minna álit hef ég á brotthlaupi Ögmundar undan erfiðum aðstæðum, en það er önnur saga. Sjálfsagt erum við ekki sammála um það í smáatriðum en þessi stjórn verður að lifa.

Verra er hvað henni gengur jafnilla og fyrri stjórnum að sýna mannúð gagnvart flóttamönnum frá fjarlægum löndum. Þar er hver sjálfum sér næstur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online