Wednesday, October 07, 2009

 

Afreksdraumar.

Í fyrsta lagi hamingjuóskir til skáldsins í Edinborg. Man einkar vel eftir 7. október 1978 þegar Ingvar setti allar innihurðirnar í Hagann. Vonandi á litla fjölskyldan góðan dag.
Aðfaranótt mánudagsins síðasta dreymdi mig afar skemmtilegan draum. Ég hafði tekið uppá því á gamals aldri að rifja upp kynni mín af frjálsum íþróttum. Ég reyndi mig í þrístökki án atrennu og í 100m hlaupi. Ég var í skýjunum yfir góðum árangri. Ég hljóp hundrað metrana á 11,3 sekúndum. Mig minnir að persónulega metið mitt frá unglingsárunum sé 11,4. Ég var sem sé búinn að bæta mig aðeins. Á þeim árum var nú bara gamla góða skeiðklukkan notuð og mælingin var uppá 1/10 úr sekúndu. Svo var ég líka frábær í þrístökkinu. Ég dúndraði sjálfum mér 9,32 metra. Það þykir nú bara nokkuð gott hjá ungum mönnum enn í dag. Í apríl 1962 setti ég íslenkt drengjamet í þessari grein, 9,46 metra. Mér hefur því farið örlítið aftur. Í draumnum var ég svo yfir mig glaður og montinn af afrekum mínum að ég var strax kominn hálfa leið í heimsmetabókina. Fyrir á að giska 10 árum reyndi ég mig í langstökki án atrennu inní Veiðivötnum. Það var alveg ferlegt. Lappirnar virtust vera úr blýi. Held ég hafi varla náð heilum metra. Hræðilegt áfall eftir að hafa margoft stokkið yfir 3 metra þegar ég var ungur og efnilegur. En svona leikur tíminn góða drengi. Draumurinn yljar mér samt og ég á fjölda góðra minninga frá því ég keppti í frjálsum fyrir tæpri hálfri öld.
Það er gjóla og hitinn við eina gráðu.Sætti mig vel við það meðan ég er laus við snjó. Ég er nýkominn úr héraðsdómi og þarf þangað aftur klukkan tvö. Ég neyddist til að fara úr gallabuxunum og rúllukragapeysunni. Virðing dómsins hefði beðið hnekki ef bindið hefði ekki verið á skyrtunni. Svona er þetta bara. Lögmennskan er svona voðalega vandmeðfarin og merkileg.
Kimi var aðeins að bregða sér útí gjósturinn. Sólskinið bætir hann aðeins upp. Svo er bara að koma sér inn aftur, nasla smávegis í sig og dorma áfram. Ósköp áhyggjulítð líf. Ég hlakka til að fara á hlerann í kvöld. Kannski set ég heimsmet í stangarstökki í nótt. Hver veit? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þrátt fyrir að hafa hætt í handbolta fyrir allnokkru kemur það enn fyrir að ég skora 10-15 mörk í leik. Það er þá alltaf um miðja nótt og ég steinsofandi. Sem sagt að dreyma.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online