Thursday, October 22, 2009

 

Stórglæponinn Siggi Sveins.

Ég varð hugsi í gærkvöldi þegar ég sá nýja kröfu í einkabankanum. Sekt uppá 10.000 krónur. Mér er gefinn kostur á 25% afslætti greiði ég kröfuna fyrir 4. nóvember n.k.Engin skýring fylgdi og ég taldi mig alsaklausan af öllum glæpum.Ég fór í bæinn í morgun að hitta lungnadoktor. Þegar ég kom austur aftur renndi ég við á lögreglustöðinni ef húsráðendur kynnu að geta upplýst mig nánar um þetta dularfulla mál. Þetta lá alveg ljóst fyrir. Á mánudaginn var, þann 19. kl. 7.50, hafði myndavél náð að festa grænu þrumuna á filmu. Mældur ökuhraði 99 km á klukkustund. Vikmörk 3 km. Það var sem sé sannað að þessari bifreið hafði verið ekið á 96 km hraða við Kirkjuferju í Ölfusi á tilgreindum tíma. En ökumaðurinn hafði ekki náðst á filmuna. Ef ég gæti bent á annan sökudólg en sjálfan mig þá skyldi ég samkvæmt 58. gr. umferðarlaga upplýsa viðkomandi yfirvöld um hver það væri. Eins og þið vitið er ég ekkert nema heiðarleikinn. Alltaf eins og Þórbergur þegar hann gerði sig heiðarlegan í andlitinu. Samt datt mér í hug að segja löggunni að Steingrímur J. hefði verið hér á ferð á gömlu Volvodruslunni. Hún hefði bilað og sem fyrrum meðlimur í flokknum hefði ég aumkvast yfir hann og skotið þrumunni undir hann. En samviska mín mótmælti. Ég var akkúrat þarna á þessum tíma á leið í réttarhaldið í Hafnarfirði.Glæpur minn var reyndar ekki framinn af ásetningi. Það er auðséð að lítið er í ríkiskassanum. Dóms- og mannréttindaráðherra alltaf í fjárþröng. Að ég tali nú ekki um hinn skattglaða fjármálaráðherra. Það þarf að beita öllum hugsanlegum ráðum til að ná í aura í kassann. Mér finnst þetta umferðalagabrot voðalega lítilsiglt.Bókstaflega smámunir einir. Alveg yfirgengilega ómerkilegt.Finn varla snefil af iðrun í sál minni. Maður má ekki orðið keyra á rúmlega 90 við bestu skilyrði. Nánast engin umferð þarna svo snemma dags. En náð stjórnvalda bjargar heilmiklu. Hvorki meira né minna en 25% afsláttur. Ég ætla að greiða sekt mína innan tilskilins frests. Steingrímur getur notað aurana til að greiða einum skilanefndarmanni laun í korter. Sannarlega mun ég líka fagna því þegar fjármálaráðherrann kemur með tillögu að sami afsláttur verði einnig á íbúðarláninu mínu. Hann lýsti því líka yfir fyrir kosningar að hann vildi afnema verðtrygginguna á lánunum.Menn eiga að standa við orð sín eða hvað? Þá verður nú aldeilis kátt á hjalla hjá okkur Rækjunen. Og framvegis mun ég fara enn gætilegar fram hjá Kirkjuferju.Og enn heiðarlegri í andlitinu en nokkru sinni fyrr.

Það er rosaflott veður hér. Sólarglenna og Kári hefur afar hægt um sig. Glæpur minn truflar mig ekki að ráði og ég verð örugglega fljótur að sofna í kvöld. Kannski verð ég bara pínulítið stoltur yfir að geta lagt ríkissjóði lið í kreppunni. Lítið lóð á vogarskál réttlætisins. Kærar kveðjur frá brotamanni og ketti hans, ykkar Hösmagi.

Comments:
Forgangsröð yfirvalda í að hafa uppi á glæpamönnum landsins er augljóslega með besta móti, sem fyrr.
 
Mergurinn málsins, Sölvi minn. Brot mitt var lítið og það skaðaði engan. Hangiketsþjófurinn fékk ekki einu sinni að éta lærið áður en hann var arresteraður.Milljarðaþjófarnir sem stálu öllu frá okkur og komandi kynslóðum brosa bara í kampinn.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online