Tuesday, October 06, 2009

 

Stefnuræða Jóku.

Ég fylgdist með sjónvarpinu frá Alþingi í gærkvöldi. Eins og væntanlega margir aðrir.Kerlingarálftin í stóli forsætisráðherra er auðvitað í vanda stödd. Komst frá ræðunni svona nokkurnveginn skammlaust miðað við aðstæður.Katrín var svona la la en Svandís hrokafull og leiðinleg. Bjarni Ben einna skástur af íhaldsliðinu en svona almennt séð voru ræðumenn þess alveg vonlausir. Þorkúlugerður langt fjarri raunveruleikanum og Ragnheiður Elín með sama skætinginn og vant er. Svo einkennilegt sem það kann að virðast fannst mér formaður framsóknarflokksins flytja langbestu ræðu kvöldsins. Siv var ágæt á milli okkar Magga á sjóstönginni í sumar en hún hefur lítið skánað í pólitíkinni. Það virðist fátt um fína drætti fyrir okkur íslendinga í þessari afleitu stöðu. Það sjá flestir nema Steingrímur og Jóhanna að þessi ríkisstjórn er í raun fallin nú þegar. Það er auðvitað slæmt útaf fyrir sig og fátt til ráða. Það tíðkast mjög hjá samfylkingarbloggurum á Moggablogginu að tala um hrunflokkana, íhald og framsókn. En þeir gleyma allir þætti SF í hruninu. Formaður þeirra, ISG, bakaði pönnukökur hjá SÞ meðan allt var á leiðinni til andskotans hér heima. Mér kemur Neró og fiðluleikur hans í hug. Viðskiptaráðherrann var þó miklu verri. Gjörsamlega úti á þekju og gerði nákvæmlega ekkert af því sem honum bar að gera. Þetta er þó aðeins hluti fortíðar sem enginn fær breytt. Ábyrgð SF er þó mikil og ekki trúverðugt þegar Jóka og félagar tala um hrunflokkana 2. Steingrímur er væntanlega á heimleið. Það verður allt reynt til að halda stjórninni saman. Sumum finnst vænna um ráðherrastóla en öðrum. Ég ber virðingu fyrir fólki sem ekki vill selja sannfæringu sína fyrir völd og vegtyllur. Og mér finnst ósanngjarnt að halda því fram að slíkt fólk haldi núverandi ríkisstjórn í gíslingu. Þó ég hafi fagnað óförum íhaldsins í síðustu kosningum var í mér beygur vegna samstarfs SF og VG. Þessir flokkar hafa verið á öndverðum meiði í veigamiklum málum. Hluti af VG hefur beygt sig í duftið fyrir SF og virðist tilbúinn að fórna miklu fyrir þetta samstarf. Aðrir andæfa og eru ekki litnir réttu auga af formanninum fyrir vikið. Málamiðlun felst ekki í því að annar hópurinn fái öllu sínu framgengt. Þessi mál munu skýrast á næstu dögum. Mín spá er sú að ef Steingrímur og Jóhanna eru óbifanleg í icesave málinu þá verði þau knúin frá völdum. Það virðast nokkrar leiðir í stöðunni enn sennilega allar ófærar. Það er hið versta mál eins og Ragnar Reykás hefði orðað það.

Það er kyrrt og fallegt veður. Snjólínan í miðju Ingólfsfjalli. Snjókoman kom ekki við á Selfossi í nótt en vegir hálfófærir neðarlega í Ölfusinu. Þetta er Ísland. Landið, sem nú er því miður í erfiðum málum. Ég ætla að hugsa uppá gamla mátann. Þetta reddast einhvernveginn. Við Kimi höldum okkur inní hlýjunni. Höfum líka enn í okkur að éta. Það er nú meira en ýmsir aðrir. Ég þakka kærlega fyrir sendinguna frá Edinborg. Afrek Hrafnhildar Kristínar koma Hösmaga afa ekki á óvart. Snöfurleg snót og státin stelpa. Bestu kveðjur frá okkur fósturfeðgum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bestu kveðjur sömuleiðis! SB, HS & HK
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online