Tuesday, October 13, 2009

 

Góðviðri.

Það voru 11 gráður hér um miðnætti í gærkvöldi. Mér finnst þetta ofurljúft. Tveir litlir skaflar eftir í fjallinu mínu góða. Raikonen kann sér ekki læti yfir að vorið sé komið aftur.Heldur sig utandyra og nærist á blíðunni. Er á meðan er og spáin er ágæt fyrir næstu daga. Sennilega þarf ég ekki norður á föstudaginn því héraðsdómarinn býðst til að rétta í Reykjavík á mánudaginn. Það sparar bæði tíma og bensín en það hefði líka verið skemmtilegt að skreppa norður. Nú nálgast lokafresturinn vegna icesave reikninganna. Eins og ég hef áður sagt hér á blogginu finnst mér vænt um minn gamla læriföður, Sigurð Líndal. Ég varð þessvegna mjög ánægður með að heyra álit hans á þessu máli á visir.is í morgun. Ég er hreinlega alveg hættur að botna í Jóhönnu og Steingrími. Einkum Steingrími. Þó hann hafi samþykkt umsóknina að ESB geri ég nú ekki ráð fyrir að það hafi verið honum auðvelt. Jóhanna er að sjálfsögðu reiðubúinn að fórna miklu fyrir aðgöngumiða að ESB. Það hefur lengst af verið önnur af tveimur hugsjónum SF að koma okkur íslendingum inní þann félagsskap. Og ráðherrastóll fjármálaráðherrans er mjúkur. Hann langar alls ekki að standa uppúr honum. Það má eiginlega skipta VG í 2 hluta. Annarsvegar er Steingrímur með hirð tryggra sauða sinna, þær Álfheiði, Svandísi og Katrínu og svo þá Árna Þór og Björn Val. Tryggilega í tjóðri formannsins.Þuríður Bachman, Jón Bjarnason og Bjarkey virðast lausbeisluð. Restin stendur í lappirnar, þau Atli, Liljurnar báðar, Ögmundur og Ásmundur Dalabóndi. Mitt fólk í VG. Það er auðvitað mikilvægt að fólk sé samstíga í ríkisstjórn. En göngulagið má ekki stjórnast af ofbeldi og skoðanakúgun. Það er í rauninni kraftaverk að stjórnin dragi enn andann undir einræðistilburðum forsætisráðherrans. Jafnvel Össur virðist sjá þetta þó hann, aldrei þessu vant, segi frekar fátt. Þó ég elski nú framsóknarmenn svona heldur lítið finnst mér ágætt hjá Sigmundi að tala við norðmenn. Ég elska þá ekki heldur mjög heitt. Það er algjör óþarfi að hlýða gömlu nýlendukúgurunum, bretum og hollendingum möglunarlaust. Þeir kippa líka í réttu spottana hjá AGS. Þessa handrukkunarstofnun í icesave málinu. Ég bíð eins og aðrir eftir framvindunni næstu daga. Ég held nú að það verði enginn dómsdagur á næstunni. Þetta er samt vont og það getur versnað.
Kimi mættur og búinn að kroppa svolítið í sig. Liggur nú og lygnir glyrnum sínum aftur með framlöpp undir kinn. Lífið heldur áfram. Er það ekki bara ljúft og gott þrátt fyrir allt? Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Allt sama leiðindaliðið hvar sem gripið er niður, væri best að hafa bara Árna Johnsen þarna klónaðan og láta hann afgreiða öll mál með söng.

Vissirðu annars að Bob Dylan var að gefa út jólaplötu?

Að það er skýjað með köflum í Edinborg og iðandi birta sem brýst fram í geislum sólar?

Nei, ég er viss um þér var þetta ekki ljóst!

Bestu kveðjur, SBS, HS, HK
 
Mjamm, Árna Johnsen oh. Og sososo.Þetta er rétt hjá þér. Ég vissi ekket um þetta og ekki heldur að Sölvi ætlaði að hita kex í ofni. En það er líka ýmislegt sem ég veit og segi nú ekki hverjum sem er. Kveðjur til ykkar frá okkur.
 
Væri ekki gott að klóna meistara Zimmermann og henda þeim á þing? Fá svo stórskemmtilega jólaplötu frá Árna Johnsen. Væri það ekki fullkomnun helgidómsins yfir jólasteikinni að geta hlustað á íðilfagra söngrödd afbrotamannsins kyrja Heims um ból? HA??
 
Vitiði það að ef meira verður rætt um Árna Johnsen þá verð ég að æla. Er ykkur það ljóst. Nei, mér datt það í hug. Jólaplatan í ár verður með Hösmaga.Textinn í fyrsta laginu er svona:
Þegar ungur ég var og ég áfengið drakk,
voru ánægjustundir mínc hverfula lífs,
hverja einustu mellu ég hengdi á minn klakk,
hafði túkall til skeiðar og krónu til hnífs.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online