Wednesday, September 16, 2009

 

Toccata og fúga í d moll.

Hösmagi laumaðist aftur til kirkju í gærkvöldi. Það var að vísu lítið um guðsorð en þeim mun meira af öflugum tónum. Þetta voru sem sagt tónleikar. Hinir 3ju í septembermánuði og 2 eru eftir enn. Þetta hófst einhverntíma í kringum síðustu aldamót og ég fór þá á allmarga tónleika. Svo lenti þetta í útdeyfu þar til í ár. Ég lá reyndar fyrstu tónleikana af mér í móki og þreytu eftir flensuskrattann. Það var organistinn í Akureyrarkirkju sem spilaði í gærkvöldi. Ung kona, Sigrún Magna að nafni. Það mátti heyra að hún hefði einhverntíma tekið í pípuorgel áður. Byrjaði á Bach, síðan Arvo Pärt, Jesper Madsen, Felix Mendelsohn og lauk svo spilverkinu með þekktasta verki kirkjutónlistarinnar, tokkötu og fúgu í d moll sem er líklega samin fyrir hátt í 300 árum. Bach var fæddur 1685. Þetta er magnað tónverk og ég held að sá sem ekki hrífst af því sé sálarlaus, tilfinningalaus og kannski heilalaus líka. Pípuorgelið er líka eiginlega mörg hljóðfæri í einni og sömu græjunni. Ég óttaðist á tímabili að þakið lyftist af þessu guðshúsi og svifi út á Ölfusá. Þegar tónleikunum lauk klöppuðu áheyrendur þessum ágæta listamanni lof í lófa. Þetta er kærkomin tilbreyting þegar haustmyrkrið er að færast yfir. Spjall,kaffi og nammi á eftir. Þá er ekki verra að þetta er ókeypis sem kemur sér vel í kreppunni. Ég hyggst koma mér upp diski með þessu fræga verki. Það mun örugglega hljóma vel í græjum grænu þrumunnar á bökkum Ónefndavatns. Þar hef ég stundum gefið Freddy Mercury lausan tauminn. Ég er líka hrifinn af Albinoni. Hann var sannur listamaður eins og Bach en er nú flestum gleymdur því miður.
Það er haustlegt og búið að rigna heilmikið í dag. Ég er nú að verða allhress og verð að fara að taka til hendi. Bókhald og undirbúningur undir málflutning norður í landi um miðjan næsta mánuð. Það er orðið æði langt síðan ég hef komið norður fyrir Holtavörðuheiði og það er bara tilhlökkunarefni að eiga það í vændum. Kimi heldur sig innandyra og virðist geta sofið endalaust.Bestu kveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Efast ekki um að Bach hefur verið góður. Maður lærir að meta hann með aldrinum. Ég er þegar djúpt sokkinn, þó ég sé ekki fæddur nema rétt fyrir myntbreytingu.

Gott ef ég skelli honum ekki bara hérna á meðan ég les í Politiken, allt þér til heiðurs.

Kveðjur frá Danaveldi.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online