Monday, September 07, 2009

 

Gikkur í guðshúsi.

Ég fór í kvöldmessu í Selfosskirkju í gærkvöldi. Með vinkonu minni og fyrrum sambýliskonu, Grétu. Það verður nú ekki sagt um mig með réttu að ég sé beinlínis þrunginn trúarhita. Og hvað er utanþjóðkirkjumaður að strekkja til kirkju að kvöldlagi? Ástæðan var gamli popparinn Þorvaldur Halldórsson. Hann hefur hin síðari ár gengið á guðsvegum. Fólk man örugglega eftir lögunum Á sjó og Þú ert svo sæt. Ég skemmti mér líka oft í Sjallanum á yngri árum. Þegar ég var hjá Orkustofnun í gamla daga og haldið skyldi norður í land voru brennivínsfötin ávallt meðferðis.Ég var bara í venjulegum buxum, rúllukragapeysu og jakka í gærkvöldi. Þorvaldur getur svo sannarlega sungið enn og lunkinn mjög með skemmtarann. Ég hafði mikla ánægju af söng hans. Og konu hans, Margrétar, einnig. Presturinn og djákninn voru þarna líka og fengu að skjóta inn einu og einu guðsorði. Þegar Þorvaldur söng, drottni sínum til dýrðar og vegsauka, hugsaði ég mitt. Gikkurinn í mér setti allt í einu Steingrím J. í stað Jésúsar.
Steini, við lofum þig og þér lútum
og við lyftum höndum okkar
og við upphefjum þitt nafn.
Þú mikill ert
máttarverk þín stórkostleg
enginn jafnast á við þig.
enginn jafnast á við þig.

Ég sá þetta fyrir mér á einkafundi klíkunnar í kringum Steina. Andaktugt liðið, Kötu, Svandísi, Árna Þór og Álfheiði. Mænandi á aðalritarann mikla. Sjálfan formanninn. Sæluhrollurinn hríslandi um blessað fólkið yfir afrekum leiðtogans. Þetta er auðvitað voðalega ljótt af mér. Eins gott að ég staldraði stutt við í flokki vinstri grænna. Þetta var ágæt kvöldstund. Í lokin gengu allir í halarófu að prestinum og djáknanum. Með útbreidda lófana. Ég fékk krossmark með ferðablessun í báða lófa. Lét mér það vel líka og svo var þessi fína lykt af smyrslinu sem fylgdi blessuninni. Ég var bara betri maður þegar heim kom eftir kvöldkaffi með Grétu minni.

Heilsa mín er að batna. Á miðvikudaginn kemur hitti ég minn ágæta lækni, Eirík Jónsson. Ég hitti líka Sturlu Johnsen á miðvikudaginn var. Góður læknir og ákaflega viðræðugóður maður. Honum fannst líklegt að ég hefði fengið svínaflensuna alræmdu. Hann sagði mér eftir að að hafa skoðað mig að ég væri alveg að klára þessa pest. Það er auðvitað hundfúlt að hafa eytt heilum mánuði af þessu yndislega sumri í að berjast við þessa vondu sendingu. Aðalatriðið er þó að endurheimta heilsu sína á ný. Kannski kemst ég einn dag í Ölfusá núna í september. Laxarnir eru nú orðnir 408 sem er mjög gott, ásamt einstaklega góðri sjóbirtingsveiði. Það er að koma haust og veturinn kemur líka. Þrátt fyrir Steingrím og Jóhönnu ætla ég ekki að leggjast í sút. Það mun vora aftur. Gamli veiðimaðurinn ætlar að halda ró sinni og bjartsýni. Ég vonast til að hitta Hrafnhildi Krístínu í vikunni. Og foreldra hennar. Það verður indælt.
Kisi minn liggur á bakinu í gamla tágastólnum. Honum fannst notalegt að fá stroku eftir maganum frá fóstra sínum. Klukkan 4 í dag ætla ég að sjá þýsku stelpurnar rúlla þeim norsku upp. Svona fimm núll. Þó ég sé nú engin fótboltafrík hefur það stytt mér stundir að fylgjast með þessu evrópumóti. Selfoss hefur í fyrsta sinn tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni og ég er líka bara montinn yfir því. Við Kimi sendum ykkur öllum okkar albestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online