Sunday, September 27, 2009

 

Svallbróðirinn afi.

Mér fannst það skondið þegar ég hlustaði á nafna minn A. Magnússon í Kilju Egils nú í vikunni að þar kom afi minn við sögu. Sigurður var að rekja æsku sína. Fátækt og basl. Bók hans, Undir kalstjörnu, er nú nýkomin út í aftur í safni úrvalsbókmennta.Faðir hans var kallaður Merar-Mangi. Hestamaður, drykkju- og kvennamaður mikill. Sigurður sagði frá því að oft hefði Benedikt Sveinsson verið í slagtogi með föður sínum. Benedikt var faðir Bjarna Ben, afi Björns Bjarna og langafi Bjarna,núverandi formanns sjálfstæðisflokksins. Ennfremur upplýsti nafni minn að afi minn, Karl Lárusson, Lúðvíkssonar skókaupmanns hefði oft verið með þeim í slarkinu. Ættfeðrum mínum í móðurætt þótti víst brennivín nokkuð gott. Merarmangi var iðinn við kolann í kvennamálum. Hann átti 23 börn með 7 eða 8 konum. Afi virðist hafa átt þetta til líka. Á efri árum komst móðir mín að því að hún átti systur sem var 2 mánuðum eldri en hún. Mér er sagt að móðir mín hafi einu sitt föður sinn. Hann mun hafa gefið henni skó úr verslun gamla Lárusar G. Það voru hennar einu kynni af honum og skórnir það eina sem hann lét þessari dóttur sinni í té um ævina. Klara Karlsdóttir átti heldur engan þátt í að drekka út allan auðinn sem þessi skóverlsun skóp. Ég hef svosem aldrei haft mikinn áhuga á ættfræði en mér fannst skemmtilegt að Sigurður skyldi minnast á þennan afa minn.
Það haustar hratt að þessa dagana og september að kveðja. Það er þó snjólaust enn hér sunnanlands þó aðeins hafi gránað til fjalla. Herconinn rólegur í bílskúrnum og línur mínar munu líklega ekki strengjast oftar á þessu ári. Ég fer til höfuðborgarinnar í fyrramálið. Sneiðmyndataka á landspítala og vonandi hitti ég svo eitthvað af afkomendum mínum á eftir. Þá á ég erindi við Nínu systur mína. Hún á afmæli í dag og fær bestu kveðjur frá litla bóa. Það voru nokkuð stríð veisluhöld hjá okkur Kimi í síðustu viku. Harðfiskur, humar og ýsa og í þessari röð. Við erum því nokkuð brattir í dag og sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online