Tuesday, August 25, 2009

 

Með angur í hjarta...

og dirfskunnar móð, ferð þína eigin, ótroðnu slóð. Ég hélt að ég væri orðinn albata í gærmorgun. Því miður reyndist það ekki rétt. Um hádegi var ég orðinn svangur. Nokkuð sem hafði ekki gerst í hálfan mánuð. Borðaði sviðakjamma og 2 bita af kjúklingi og það var ágætt. Þegar leið á daginn jókst slenið á ný. Ég hékk yfir fótboltanum í sjónvarpinu og fór svo nokkuð snemma að sofa. Slappur í morgunsárið og ég tók ekki áhættu með því að fara út. Hringdi á spítalann og sagði mínar farir ekki sléttar. Viðtal við doktor kl. 11. Hann var bergmálið af þeim sem ég talaði við þann 14. Sá hinn sami hefur meiri áhuga á býflugnarækt en lækningum. Hann úthlutaði mér sjálfum sér sem heimilislækni í vetur en ég mótmælti og valdi mér annan. Kannski hefur honum ekki líkað það. Það er hans mál en ekki mitt. Þessi ungi afleysingalæknir sem ég hitti í morgun sagði mér að hætta að reykja. Það væri heilsuspillandi og ég væri á síðustu metrunum. Hætta á lungnaþembu, lungnakrabbameini, kransæðastíflu og heilablóðfalli. Mér hefur lengi verið ljóst að reykingar eru ekki heilsusamlegar. Þessi náungi át upp eftir hinum að ég ætti langa reykingasögu. Ég þurfti bara alls ekki að hitta hann til að fá það upplýst. Ég spurði hvort hugsast gæti að ég væri með verri sýkingu vegna málmsins í vinstra lunganu. Hann starði á mig í forundran, sagði að aðrir biðu eftir sér og ég skyldi fara í apótekið að sækja þangað lyf sem myndu hjálpa mér að gleyma tóbakinu. Sagði mér líka að sumir væru veikir af þessari illkynjuðu pest í viku, hálfan mánuð og aðrir í 3 vikur. Skyldi koma mér heim og hafa hægt um mig. Ég er réttlaus meðan ég hætti ekki reykingunum með öllu. Ég reyki að vísu einn og einn vindil enn. Mér til hugarhægðar og yndisauka í öllum leiðindunum. Ég hef þó stórdregið úr þessu og auðvitað segir skynsemin mér að best væri að hætta alveg. Kannski geri ég það fljótlega. En ég yfirgaf spítalann í morgun með angur í hjarta. Ég fór bónleiður til búðar. Enda bara annars- eða 3ja flokks borgari. Ég vil reyndar óska báðum þessum læknum farsældar í starfi. Ég mun samt reyna að vera án starfskrafta þeirra framvegis. Þó allt sem þeir hafi sagt um tóbakið sé satt og rétt er það vond læknisfræði að afgreiða fólk með þessum hætti.
Ég á pantað viðtal við Eirík Jónsson, minn ágæta skurðlækni, í næsta mánuði. Ég reyni að fá því flýtt. Það er maður sem hægt er að tala við. Maður, sem tekur starf sitt alvarlega, gerir ekki lítið úr fólki, né afgreiðir það með þeim hætti að það gangi burt með angur í hjarta. Það er gott að slíkt fólk sé enn við störf í heilbrigðisgeiranum.
Kimi minn reynist mér betur en enginn í þessum hremmingum. Segir fátt en samvera við lítið dýr getur gefið heilmikið. Hann dormar nú á gamla tágastólnum. Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Það var einmitt þarna sem ég keypti jakkann!
 
Mjamm, ég hef nú smakkað betra hvítvín en þetta.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online